Herjólfsdeilan

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 16:04:20 (5472)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég óska eftir því að hæstv. samgrh. komi í salinn.
    Það er leitt að hæstv. samgrh. skyldi sjá ástæðu til þess að hnýta í þann forseta sem hér situr og segja m.a. að það væri ekki nýtt að hann deildi við þann forseta sem í stólnum sat um þingsköp því það er alveg augljóst að það er innanbúðarvandi Sjálfstfl. sem hefur skapað þann vanda sem hér kom upp.
    Hv. málshefjandi, Árni Johnsen, lýsti því yfir hér, hæstv. samgrh., í upphafi máls síns að hann óskaði eftir því að hæstv. samgrh. væri viðstaddur. Það var því þingmaður Sjálfstfl., Árni Johnsen, sem hóf mál sitt hér, hæstv. samgrh., og er nú vont að innanbúðarvandamálið sé orðið svo slæmt að ráðherrann haldist ekki við í salnum heldur sé rokinn út með reiðisvip til fundar við forsrh. í hliðarsal. Ég er að reyna að greiða aðeins úr þessari flækju svo að sitjandi forseti, sem hér var áðan, sé ekki borinn þeim sökum sem gert var áðan. Það var sem sagt hv. þm. Árni Johnsen, hæstv. samgrh., sem hóf mál sitt með því að undrast það að hæstv. samgrh. væri ekki mættur og skildu allir þingmenn þá ræðu hv. þm. Árna Johnsens á þann veg að hann hlyti að hafa óskað eftir því að hæstv. samgrh. væri hér mættur, enda er það venja sem við þekkjum öll hér í salnum að sá þingmaður sem ætlar að tala utan dagskrár um ákveðið mál og vill fá ákveðna ráðherra til viðræðna, hefur samband við þá ráðherra sjálfur og óskar eftir því að þeir komi. Það er að vísu hvergi skráð í þingsköpum en það er ein af þeim reglum sem við höfum öll fylgt hér um langt árabil. Það er nauðsynlegt að hæstv. samgrh. fái að vita það hvernig þessi umræða birtist hér í salnum. En hitt er aftur á móti mjög merkilegt að þeir treysta sér ekki til að tala saman, hv. þm. Árni Johnsen og hæstv. samgrh., en það er kannski ekki undarlegt eftir þau ummæli sem hv. þm. Árni Johnsen lét falla um hæstv. samgrh. í einum sterkasta fjölmiðli landsins fyrir nokkrum dögum síðan, en þá sagði hv. þm. Árni Johnsen um hæstv. samgrh. að eins og alþjóð vissi, þá talaði hann nú iðulega áður en hann hugsaði.