Kaup á björgunarþyrlu

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 16:17:20 (5476)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þessi stutta ræða var náttúrlega fyrst og fremst viðurkenning á því að hv. þm. gerir sér grein fyrir því að hann fór með rangt mál hér í ræðu sinni. Hann var að viðurkenna að það er efnislega rétt sem ég var að rekja. Á fyrri hluta árs 1991 lá fyrir fagleg niðurstaða í málinu, það lá fyrir tillaga frá yfirmönnum Landhelgisgæslunnar og frá þeim embættismönnum dómsmrn. og fjmrn. sem hafa með þetta mál að gera. Það er enginn orðhengilsháttur eða orðskýringaþáttur þar sem þarf leyfi frá guði almáttugum til þess að flytja. Það eru bara einfaldlega staðreyndir málsins.