Kaup á björgunarþyrlu

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 16:31:53 (5483)


     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég stend upp hér til að lýsa stuðningi mínum við þetta mál. Jafnframt langar mig til að þakka hv. 1. flm. frv., hv. þm. Inga Birni Albertssyni, fyrir hans elju í þessu máli. Það á sér orðið alllanga sögu eins og við þekkjum. Sú saga mun ekki verða afmáð. Það mun engu breyta hversu auðvirðilegan málflutning einn og einn hv. þm., eins og til að mynda hv. þm. Suðurl. Árni Johnsen, hefur hér í frammi um það að dugnaður hv. þm. Inga Björns Albertssonar í þessu máli er metinn að verðleikum út um allt þjóðfélagið. Ekki síst eru það sjómenn og björgunarsveitir og aðrir slíkir aðilar sem hafa fylgst vel með því og vita vel hverjum er helst að þakka forustu fyrir þessu máli.
    Það mun hafa verið veturinn 1987--1988 sem ég var norður í landi og þá hittu mig m.a. að máli nokkrir loðnusjómenn á norðlenskum loðnuskipum og vildu færa í tal áhuga sinn á því að reynt yrði að knýja fram ákvörðun um endurnýjun á björgunarþyrlum Landhelgisgæslunnar. Þetta eru þeir sjómenn íslenskir sem við núverandi aðstæður í okkar sjávarútvegi eru kannski hvað oftast að sigla drekkhlöðnum skipum um hávetur norður fyrir land eða vestur og jafnvel að veiðum langt úti í hafi. Þetta eru stór skip með það fjölmenna áhöfn að núverandi þyrla Gæslunnar tekur ekki áhöfn í einni ferð. Það er þess vegna ofur eðlilegt að þessi hópur sjómanna sýni þessu máli áhuga en hann er ekki einn um það.
    Þegar ég kom suður eftir að hafa átt fund með þessum loðnusjómönnum þá vildi svo til að ég fór að taka saman drög að tillöguflutningi í þessu máli og var með hann í töskunni þegar hv. þm. Ingi Björn Albertsson kom og sýndi mér drög að sinni fyrstu till. til þál. um þessi þyrlumál. Ég tók því að sjálfsögðu fagnandi að slást í lið með honum í þessu máli. Síðan er mikið vatn runnið til sjávar. Þó hafa þeir áfangar náðst í þessu máli sem er satt best að segja ótrúlegt miðað við þau spor sem við stöndum í í dag að Alþingi hefur afdráttarlaust mælt fyrir um það fyrir hartnær tveimur árum að á því ári skyldi keypt björgunarþyrla eða gengið til samninga um björgunarþyrlu. Það er auðvitað mjög sérkennilegt og óvenjulegt þegar um svo afdráttarlausa samþykkt Alþingis er að ræða að hún skuli ekki vera komin til framkvæmda. Það er í ljósi þeirrar óvenjulegu aðstöðu sem nú er gerð tillaga um að Alþingi taki enn betur af skarið í þessu máli með lagasetningu. Það er að sönnu óvenjulegt að leggja til að einstök framkvæmd eða einstök ákvörðun af þessu tagi sé tekin með sérstakri lagasetningu á Alþingi. En úr því að annað dugar ekki á hæstv. ríkisstjórn þá er það tvímælalaust rétt og ég tel að virðing Alþingis sé að nokkru leyti í húfi að láta ekki fótumtroða vilja sinn svona ár eftir ár eins og hér hefur verið gert.
    Það er alveg ljóst að tíminn hefur ekki staðið í stað í þessu máli frekar en öðrum og það hefur tapast dýrmætur tími til að fá þetta nýja björgunartæki í gagnið síðan Alþingi fjallaði um það og ákvað með þál. snemma árs 1991 að þá skyldi ráðist í endurnýjum. Nú er komið inn á það ár ef mig misminnir ekki þegar stórskoðun þarf að fara fram á þyrlu Landhelgisgæslunnar. Reynslan úr rekstri hennar síðan 1991 færir okkur því miður heim sanninn um það sem spáð var fyrir að frátafir hennar vegna bilana og skoðana mundu aukast ár frá ári úr þessu. Um slíkt geta reyndir menn í flugrekstri að sjálfsögðu borið og viðhaldsbók mælir fyrir um það að miklu leyti hversu miklar slíkar frátafir verða. Það er þess vegna enn brýnna en ella að nú verði ekki frekari tíma kastað á glæ í þessu máli.
    Staðreyndin er sú að þetta mál hefur verið tilbúið til ákvarðanatöku að minnsta kosti í eitt og hálft til tvö ár. Það er rugl að halda því fram að það hafi þurft margra ára undirbúning að þessari einföldu ákvörðun eins og hér er í raun og veru reynt að gera af þeim sem eru í því ömurlega hlutskipti að verja frammistöðu hæstv. ríkisstjórnar í þessu máli. Það er rugl. Það vita auðvitað allir að sérfræðingar Landhelgisgæslunnar hafa árum saman fylgst með þessum málum. Þeir voru ekki að vakna af neinum svefni hvorki árið 1991 né 1992 né 1990. Þar eru þeir menn íslenskir á ferð sem mesta sérþekkingu hafa á þessu máli. Eða hvert ætla Íslendingar að sækja reynsluna ef ekki í hóp þessara manna?
    Ég hygg að það hafi verið árið 1990 sem yfirflugstjóri og flugmenn og sérfræðilegir ráðgjafar Landhelgisgæslunnar gengu á fund nokkurra ráðherra í þáv. ríkisstjórn og kynntu þeim stöðu mála. Þeir sögðu auðvitað það sem augljóst mátti vera hverjum manni að þeir fylgdust með þessum málum frá degi til dags. Það kæmi ekki svo út bæklingur um þyrlumál að þeir læsu hann ekki spjaldanna á milli, eðlilega. Þannig að ég fullyrði að það er rugl sem hér er haldið fram. Af tæknilegum ástæðum þurfti meira en vikur, í mesta lagi mánuði, til að ganga frá ákvörðun í þessum efnum. Málið er ekki óskaplega flókið í sjálfu sér. Það eru sömu vélategundirnar á ferðinni og verið hafa ár eftir ár. Það er margbúið að framkvæma tæknilegan samanburð á þessum vélum. Sérfræðingar Landhelgisgæslunnar hafa allar upplýsingar um það. Síðan er reynt að blanda inn í þetta mál jafnfurðulegum hlutum eins og þeim að það þurfi að fara í sérstaka úttekt á mögulegu samstarfi við björgunarsveit hersins. Er hann ekki bölvanlega búinn að vera hér í landinu, þessi her, um áratugi. Er eitthvað nýtt í þeim samskiptum? Ég hélt ekki. Að það þyrfti að fara út í einhverja sérstaka úttekt á Landhelgisgæslunni. Til hvers? Til að finna út hver sé tilgangurinn með rekstri björgunarþyrlu? Tilgangurinn með rekstri björgunarþyrlu er að bjarga mannslífum. Einfaldara getur það ekki verið. Það þarf engar úttektir til að fá það á hreint. Þetta er einhver allra ömurlegasti og auðvirðilegasti málflutningur sem ég hef heyrt um langa hríð þegar talsmenn hæstv. ríkisstjórnar er að reyna að klóra í bakkann hér á þingi. Þeir munu ekki bæta málstað sinn meðal íslenskra sjómanna, björgunarsveitamanna eða almennings í landinu með þessari frammistöðu. Ef það á að verða lærdómur okkar af málflutningi sumra hv. þm. Sjálfstfl. hér, að það sé sökum öfundar í garð hv. þm. Inga Björns Albertssonar, sem þeir koma svona fram í málinu, ja ekki fegrar það nú málstað þeirra. Ekki gerir það vondan hlut betri, hæstv. forsrh., ef það er svoleiðis ( Forsrh.: Hvað?) sem liggur í málinu. Að það sé vegna innanflokksástæðna sem Sjálfstfl. hamast svona gegn þessu máli, sem ríkisstjórn hæstv. forsrh. hefur dregið lappirnar í hartnær tvö ár í þessum efnum. Ekki gerir það vondan hlut betri.
    Það er alveg augljóst mál, öllum ber saman um það sem fylgst hafa með þessum málum, sérfræðingum Landhelgisgæslunnar, þeim sem vinna að björgunarstörfum, sjómönnum og öðrum, að ekkert geti komið í staðinn fyrir rekstur á öflugri íslenskri björgunarþyrlu sem er mönnuð Íslendingum, staðkunngum mönnum, þrautþjálfuðum við íslenskar aðstæður. Það eru mörg, mörg dæmi um það að staðkunnátta og reynsla íslenskra þyrluflugmanna hefur bjargað mannslífum þar sem erlendir aðilar urðu frá að hverfa. Ég man til að mynda eftir einu atviki sem ég fylgdist nánast með í beinni útsendingu, þegar þyrlan flaug undir skýjum nánast í 5--10 metra hæð yfir sjó norður með öllum Ströndum, og sótti þangað dauðveikan mann. Það var óhugsandi að við þær aðstæður hefðu aðrir en staðkunnugir og þrautþjálfaðir íslenskir flugmenn geta leyst verkefnið af hendi vegna þess að þeir einir höfðu þá staðkunnáttu, þá þekkingu og þá þjálfun sem til þurfti við þær aðstæður. Þess vegna er deilan ekki um það að nauðsynlegt sé að reka íslenska björgunarþyrlu mannaða íslenskum flugmönnum. Tæknilega er ekkert að vanbúnaði og hefur ekki verið í a.m.k. eitt og hálft ár að taka þessa ákvörðun. Allt annað er undansláttur, allt annað eru tilburðir til að drepa málinu á dreif.
    Nú er svo komið að Alþingi stendur öðru sinni frammi fyrir því að taka af skarið í þessu máli og vonandi gerir það það með svo myndugum hætti að þessu sinni að ríkisstjórnin komist ekki upp með frekari undanbrögð. Það er algerlega nauðsynlegt að afgreiðsla þessa máls verði með þeim hætti að ríkisstjórnin eigi engan annan kost en hunskast til þess, leyfi ég mér að segja hæstv. forseti, að virða vilja Alþingis og kaupa björgunarþyrlu.