Kaup á björgunarþyrlu

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 16:42:15 (5485)


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það vakti nokkuð undrun mína eftir heldur landsföðurlega ræðu hjá hv. 3. þm. Suðurl. í utandagskrárumræðunni hvernig hann skipti um tóntegund þegar hann fór aftur að ræða um björgunarþyrlu. Það verður að segjast eins og er að ég tel að Sjálfstfl. hafi ekki haft hæfari talsmann fyrir þann málstað sem þeir vilja vera að verja í þeim efnum en hv. 6. þm. Reykv. Það vekur þess vegna mjög undrun mína hvers vegna hv. 3. þm. Suðurl. geystist hér fram á völlinn. Hann kvartaði yfir að það væri of hratt ekið. Hann kvartaði yfir því að það væri ógreiði gerður með því að flytja þetta mál. Nánast aðför að hæstv. dómsmrh. skyldi maður ætla. Ég minnist þess að hv. 3. þm. Suðurl. kom hér inn á Alþingi og flutti hvert frv. eftir annað, sem varaþingmaður, sem hann ætlaði hv. 1. þm. Suðurl. að koma í höfn. Hefði hann unnið að þeim öllum og leyst þau þá hefði ekki þurft neina ferju til Vestmannaeyja, þá hefðu menn náttúrlega farið veginn í gegnum jarðgöngin sem hv. 3. þm. Suðurl. taldi sjálfsagt að byggja skjótt. Að vísu komu fram hugmyndir hér í salnum hvort ekki bæri að halda áfram til Skotlands ef þetta væri svona einfalt að

komast til Eyja.
    Hv. þm. gat um að það væri keyrt of hratt. Ef ég man það rétt þá er þetta sami þingmaður og lagði til að ökuhraði á vegum landsins yrði 110 km, ég man ekki betur. Þannig að mig undrar það hvers vegna hann tekur dæmið um of hraðan akstur inn í þetta þegar hann víkur að flm. hv. Inga Birni Albertssyni.
    Ég verð að segja eins og er að mér þykir það miður hvers vegna hv. 3. þm. Suðurl. hefur einhverra hluta vegna litið á það sem sitt hlutverk að ætla að gerast skjaldarberi fyrir ríkisstjórnina en endar svo þessa umræðu með því að liggja flatur undir skildinum, horfinn af vígvelli.
    Annað atriði þótti mér einnig athyglisvert og verð nú að segja eins og er að menn geta deilt um skoðanir en þingmaður hefur vissan rétt í þessum sal. Hér gilda vissar samskiptavenjur. Þegar spurt er og þingmaður beinir spurningu til ráðherra, óskar eftir skýlausu svari og ráðherrann er á staðnum, þá er það náttúrlega ekki boðlegt, hvorki gagnvart þingmanninum né þingheimi, að ráðherra svari ekki undir þeim kringumstæðum. Það er ekki boðlegt. Það er alveg sama þó við e.t.v. hugsum sem svo að hæstv. forsrh. sé þeirrar skoðunar að hv. þm. Ingi Björn Albertsson sé nú ekki efstur á vinsældalistanum hjá sér þá er það ekki boðlegt að láta slíkt koma fram með þessum hætti. Menn smækka sem ráðherrar ef þeir eru staðnir að slíku. Þeir smækka vegna þess að svona persónulegar deilur, sem alltaf geta átt sér stað, á að leggja til hliðar í þingsalnum og hér eiga menn að líta hver á annan, annar sem hv. þm. og hinn sem hæstv. ráðherra. Ég tel að hæstv. forsrh. verði maður að meiri komi hann hér í ræðustól og geri grein fyrir sínu sjónarmiði í þessu máli og svari þeim spurningum sem til hans var beint. Ég held líka að þjóðin ætlist til þess. Þjóðin ætlast til þess. Þetta mál er nú einu sinni viðkvæmt mál. Ég hef ekki reynt að spila á tilfinningar eins eða neins í þessu máli. Ég stóð að því að samþykkja það á sínum tíma að hér yrði keypt þyrla 1991 eins og hv. 4. þm. Reykv. gat um sem er kjarni málsins. Alþingi Íslendinga fer fram á það með þeim stífasta hætti sem hægt er í þáltill. að fela framkvæmdarvaldinu að gera samning á árinu 1991. Það getur enginn maður út í bæ hvort heldur sem hann er forstjóri fyrir Landhelgisgæslunni eða einhverri annarri stofnun sagt sem svo: Mig varðar ekkert um þetta, það á ekki að framkvæma þetta. Alþingi Íslendinga hefur fjárveitingavaldið og það er þess að ákveða. Auðvitað var það eðlilegt sem kom fram hjá forstjóra Landhelgisgæslunnar að það þyrfti fé til að reka þessa þyrlu. En var sanngjarnt að ætla því þingi sem ákvað að það yrði farið út í kaupin að það gerði ráð fyrir að þyrlan ætti svo að standa án þess að hún yrði rekin? Auðvitað vissu það allir sem stóðu að þessu að það þurfti að reka björgunarþyrluna.
    Ég verð að segja eins og er að mér finnst dapurlegt að búa við það að þegar mál eins og þetta er rætt þá þurfi menn af einhverri sérstakri ástæðu að reyna að ná vopnum sínum með persónulegu skítkasti í garð manna. Ég varð ekki var við þær fullyrðingar sem komu fram hjá hv. 3. þm. Suðurl., að hv. þm. Ingi Björn Albertsson hefði verið með eitthvert níð á einn eða neinn. Mig undrar þegar menn þurfa að grípa til vopna sem þessara. Mig undrar það.
    Auðvitað hendir það okkur marga í hita leiks að við gætum þess ekki að stilla okkur en þá er nú yfirleitt nokkuð mikið búið að ganga á. Hér var ekki um það að ræða.
    Herra forseti. Ég ætla ekki að verða til þess að tefja þessa umræðu en ég vænti þess að hæstv. forsrh. sýni þinginu þá virðingu og þjóðinni að svara þeim fyrirspurnum sem til hans var beint. Auðvitað höfum við misjafnar skoðanir á þessu. Ég get vel skilið að menn hafi á því misjafnar skoðanir en svörin aftur á móti eru mikils virði, bæði fyrir þingheim og þjóðina.