Kaup á björgunarþyrlu

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 17:00:22 (5489)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er fleira dapurlegt. Ummæli hæstv. ráðherra hér áðan voru það líka.
    Ástæðan fyrir því að þetta frv. er nú í umræðu er það að orðið hefur ófyrirgefanleg töf á þessu máli. Þetta er eina ástæðan í rauninni, því samþykktin liggur fyrir. Varðandi það hvort málið sé þingtækt eða ekki þá þykir mér mjög misjafnt hvað hæstv. ríkisstjórn tekur mikið mark á þessum tiltekna lagaprófessor. Ef hann tjáir sig um vald forseta Íslands og rétt hans til að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu með því að neita að skrifa undir lög þá er hann ekki eins marktækur og í þessu máli heyrist mér.
    Varðandi það að gagnrýna að nú skuli vera leitað samstarfs við varnarliðið þá held ég að helsta

ástæðan fyrir þeirri gagnrýni sé sú að þetta drepur málinu enn á dreif og það tefur það enn. Önnur ástæða er sú að hér er í rauninni ekki, eins og ég rakti fyrri í ræðu minni hér, um kost að ræða sem er álitlegur nema að valin sé gerð sem er töluvert mikið dýrari heldur en tvær helstu gerðir sem ella koma til greina. Þetta skiptir verulegu máli. Ef við erum að tala um ódýrari lausn þá erum við jafnframt að tala um kost sem er ófullnægjandi með öllu og það tel ég að við getum ekki verið þekkt fyrir að gera. Ef við erum hins vegar að tala um að fá, eins og hv. form. allshn. talaði hér um, einhvern strípaðan skrokk sem er hægt að fylla inn í þá fer það annaðhvort á kostnað gæða og tækjabúnaðar eða pláss í þyrlunni og þetta getum við heldur ekki sætt okkur við. Ég held því að það sé óhjákvæmilegt að taka til hendinni og samþykkja þetta frv.