Kaup á björgunarþyrlu

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 17:07:35 (5493)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að fara í einhverja leikfimi við hv. þm. um hvað hafi verið sagt í gjörvöllum þingræðislöndum fyrr og síðar. Þingmaðurinn virðist hafa fylgst með því. Meginmálið er þó það varðandi þetta atriði að samþykki menn lög sem standast ekki, ganga ekki upp, binda í lagafyrirmælum hluti sem ekki ganga upp, þá er ríkisstjórn mikill vandi á höndum. Það er staðreynd. Og rök prófessorsins standa í fullu gildi hvað það varðar. En meginmáli skiptir í þessum efnum það sem þingmaðurinn virtist ekki vilja heyra að ég hef sagt og segi enn að það eru örfára vikur þar til þessi efnisatriði liggja fyrir. Þá hefja menn samningaviðræður á þeim grundvelli sem þingið hefur þegar gefið. Ekki á grundvelli þessa vitlausa, marklausa frv.