Kaup á björgunarþyrlu

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 17:25:34 (5504)

     Frsm. meiri hluta allshn. (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Ekki er þörf á því af minni hálfu að fara með langt mál að þessu sinni en þó tel ég nauðsynlegt að víkja að fáeinum atriðum sem hafa skýrst í umræðunni og öðrum sem hafa komið fram og er nauðsynlegt að útskýra betur fyrir þeim þingmönnum sem virðist ekki vera ljóst um hvað málið snýst.
    Ég vík fyrst að því sem fram kom í máli hv. 3. þm. Suðurl. sem tók þannig til orða að málið fjallaði um endurnýjun björgunarþyrlu. Það fjallar ekki um endurnýjun björgunarþyrlu eins og þingmanninum ætti að vera ljóst eftir allar þær umræður sem hafa væntanlega farið fram innan þingflokks Sjálfstfl. sem hefur ótt og títt haldið fundi um þetta mál, svo mjög að það hefur tafið framgang þessa frv. um nokkra mánuði. Hins vegar harma ég það ekki ef það leiðir til þess að meiri hlutinn styður málið. Óhjákvæmilegt er að benda hv. 3. þm. Suðurl. á að málið snýst um að bæta nýrri björgunarþyrlu við núverandi flugflota.
    Eins og niðurstaða málsins birtist mér núna virðist mér að það hafi þokast töluvert. Ég get ekki sagt að ég sé viss um að málið sé í höfn í þeim skilningi að fyrir liggi afdráttarlaus stuðningur meiri hluta þingmanna við frv. En eftir að umræðan hófst að nýju á fimmta tímanum má segja að hún hafi snúist áleiðis. Af hálfu ríkisstjórnarinnar hefur greinilega komið fram að viljinn hefur verið lítill og ráðherrarnir tregir í taumi. M.a. kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, hv. 3. þm. Vestf., að orðið hefði að setja inn heimildina í fjárlögin með brtt. Með öðrum orðum að frv. var ekki lagt þannig fram af hálfu ríkisstjórnarinnar að um heimildagrein væri að ræða. Ég held að sú staðreynd segi meira en mörg orð um vilja ríkisstjórnarinnar í málinu.
    Ég vil líka benda á að engin rök hafa komið fram sem réttlæta töf málsins í tæplega tvö ár. Málið hefur legið fyrir mjög skýrt í hartnær tvö ár og einungis beðið pólitískrar ákvarðanatöku. Um það held

ég að menn geti ekki deilt þegar þau rök eru skoðuð sem menn hafa fært fram fyrir seinagangi í málinu, þá hafa þau ekki verið af því gagni að sannfæra megi nokkurn mann um réttlætingu á þeirri töf.
    Ég er ósammála hæstv. forsrh. í mati hans að frv. hafi skaðað málið. Þvert á móti. Það er ljóst að frv., umræðan í nefndinni og umræðan í dag hefur styrkt málið stig af stigi eins og við höfum heyrt með því að fylgjast með hvernig hæstv. forsrh. hefur breytt áherslum sínum í svari við sömu spurningunni í þrígang. Fyrsta svar hæstv. forsrh. við því hvort þyrla yrði keypt á þessu ári eða ekki var eitthvað á þessa leið, ekki orðrétt: Sérfræðingar þurfa ekki nema örfáar vikur til þess að meta fyrirliggjandi gögn og skila af sér. Þá er ekkert til fyrirstöðu að taka ákvörðun í vor. --- Þetta er mjög veikt.
    Lítum á næstu útgáfu hæstv. forsrh. Hún er eitthvað í þessa veru: . . .  stendur ekki annað til en að gera samning um þyrlukaup. --- Það er mikill munur á þessu.
    Þriðja útgáfan og sú síðasta var eitthvað í þessa veru: Ríkisstjórnin mun innan fárra vikna ganga til samninga um kaup á þyrlu.
    Beri menn saman fyrstu útgáfuna og síðustu. ( Gripið fram í: Þegar í vor, þegar í vor.) Þegar í vor. Það eina sem vantar er að hala fiskinn alveg inn fyrir borðstokkinn og nú eiga menn, fyrst lag er, að toga vel í færið og ná inn já-inu því það er svo lítið sem vantar upp á.
    En ég vil vekja athygli þingmanna á og þar á meðal hv. 1. þm. Vestf. að já-ið er ekki komið og áskorun hans frá því síðla í haust, fyrir nokkrum mánuðum, um það að stjórnvöld taki af skarið strax og taki ákvörðun um kaup á björgunarþyrlu hefur ekki verið mætt að fullu. Ég vil því biðja hv. þm., sérstaklega stjórnarliða í Sjálfstfl., að gera sér grein fyrir því að málið er ekki að fullu unnið en ekki vantar mikið upp á og það er í þeirra höndum hvort úr því verður eða verður ekki að efndir verða á þeim loforðum sem margir hafa gefið og sumir gefið með skýrari hætti en aðrir. Þar dugar ekki annað en að halda sig við sannfæringu sína og þann vilja sem menn hafa ítrekað látið koma í ljós annars staðar en í þingsölum því að öðrum kosti náum við ekki þorskinum fullkomlega inn fyrir borðstokkinn.