Ríkisábyrgð á bótagreiðslum vegna grófra ofbeldisbrota

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 17:49:48 (5510)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. flm. þessa máls fyrir það frumkvæði sem hún sýndi í því og tel mig geta fullyrt að um það hafi nú þegar myndast ágæt samstaða sem ég vona að sé víðtæk. Flm. eru úr öllum flokkum og ég sem einn flm. get m.a. fullyrt að í mínum stjórnmálasamtökunum, Kvennalistanum, styðjum við þetta mál allar heils hugar.
    Í mínum huga er langsamlega mikilvægast að horfa á þetta mál út frá sjónarmiði fórnarlambsins, þ.e. að tryggja að niðurstaðan verði með þeim hætti að það verði ekki viðbótarálag, niðurlæging eða auðmýking að standa í því að ná þeim bótum sem fórnarlambinu eru dæmdar í slíku máli. Oft á tíðum er sú reynsla og það álag hreinlega salt í sárin í máli sem kannski er seint tilkomið. Það hlýtur að skipta miklu máli að ekki þurfi að bæta enn á mein orðið hefur verið eftir slíkt mál. Hvaða leið sem valin verður er þetta mikilvægasta veganesti sem ég held að nefnd sú sem hér er lagt til að verði skipuð þarf að hafa.
    Það er áreiðanlega ástæða til að fara mörgum orðum um það hversu gott þetta mál er og brýnt að það hljóti skjóta og góða úrlausn. Ég held að ef þetta verður kannað með þetta að leiðarljósi og með því að horfa á málið út frá þessu sjónarmiði verði auðvelt að finna leið sem bæði er framkvæmanleg, réttlát og dregur ekki úr varnaðaráhrifum.
    Ég er alveg sammála hv. 1. flm. þessa máls að enginn er að tala um að létta neitt eða að draga úr ábyrgð afbrotamannsins. Hins vegar er sjónarmiðið fyrst og fremst það í mínum huga að ekki sé verið að efna til viðbótarerfiðleika fyrir fórnarlambið og því sé rétt að aðskilja þetta þannig að fórnarlambið þurfi ekki að leita beint til árásarmannsins eða afbrotamannsins til þess að fá réttlátt dæmdar bætur.