Seðlabanki Íslands

118. fundur
Föstudaginn 26. febrúar 1993, kl. 11:27:08 (5523)

     Halldór Ásgrímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Hér er um allumfangsmikið mál að ræða sem varðar löggjöfina um Seðlabanka Íslands og þarf að vísa til efh.- og viðskn. og hæstv. viðskrh. hefur þegar lagt það til. Ég vil benda á að í 23. gr. þingskapa er gert ráð fyrir því að mál eins og þetta geti komið til nefndar til athugunar áður en 1. umr. fer fram. Ég tel að þetta sé einmitt slíkt mál að mikilvægt sé fyrir nefndarmenn að fá upplýsingar um málið, fá skýringar frá þeim sem samið hafa frv. til þess að 1. umr. geti farið eðlilega fram. Ég vil því óska eftir því, virðulegi forseti, að þessari grein þingskapanna verði beitt og málið fari til athugunar í efh.- og viðskn. eins og segir í 23. gr. þingskapalaga, og að lokinni þeirri athugun haldi 1. umr. áfram. Ég vil því, virðulegi forseti, fara þess formlega á leit að þessi málsmeðferð verði viðhöfð, en það var einmitt ætlunin þegar þessi ákvæði voru sett í þingsköpin að auðvelda nefndarmönnum að fá upplýsingar um viðamikil mál áður en 1. umr. fari fram. Ég tel þetta mál vera af þeirri gerð að það sé nauðsynlegt fyrir okkur sem eigum að fjalla um málið að geta talað við þá aðila sem hafa unnið að undirbúningi málsins, geta rætt við fulltrúa Seðlabanka Íslands og fleiri áður en 1. umr. fer fram.