Seðlabanki Íslands

118. fundur
Föstudaginn 26. febrúar 1993, kl. 11:47:30 (5532)

     Rannveig Guðmundsdóttir (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég var nú kölluð í símann þannig að ég heyrði ekki orsakir settar fram fyrir þeirri beiðni sem hér er til umræðu. Vissulega hefur það stundum heyrst í umræðu milli manna um meðferð mála á hv. Alþingi að það gæti jafnvel verið betra fyrir framvindu þeirra að mál færu beint til nefndar og jafnvel er sagt að það gerist hjá sumum þjóðþingum. Það er nú einu sinni ekki þannig hjá okkur og þess vegna hefur það ekki gerst hjá okkur að mál fari almennt beint til nefndar en þau hafa hins vegar fengið umfjöllun við 1. umr. og farið síðan í nefndarvinnslu.
    Hér erum við með mál sem er mjög skýrt með ítarlegri greinargerð. Það er vel unnið eins og slík mál gerast best sem hér koma inn til umfjöllunar og tilbúið í 1. umr. Ég man ekki að það hafi áður gerst að farið væri fram á það að mál, jafnvel þótt þau hafi verið umdeild, færu beint til nefndar án umræðu. Það þýðir ekki að ég sé að leggjast gegn þessu erindi nú, en þetta vekur furðu mína og mér finnst eðlilegt að þessar athugasemdir mínar komi hér fram. Það stendur í þingskapagreininni sem vísað er til að áður skal þó liggja fyrir samþykki þeirrar nefndar sem málinu er vísað til.
    Nú er það þannig að formaður efh.- og viðskn. er ekki viðstaddur hér og mér er ekki kunnugt um það hvort þeir níu þingmenn sem sett hafa fram þetta erindi hafa rætt við hann. Sem varaformaður efh.- og viðskn. vil ég að það komi fram að mér er þetta mál algerlega ókunnugt. Það kemur mér á óvart að þessi beiðni hafi komið fram. Ég hefði haldið að ef menn ætluðu sér að setja fram ósk um að mál færi til nefndar áður en það yrði rætt við 1. umr., þá hefði slík ósk komið fram á öðrum tíma, þ.e. áður en málið hefði komið á dagskrá sem annað tveggja mála á dagskrá fundar sem settur er á sérstökum degi eins og þessum föstudegi sem er ekki hefðbundinn þingdagur. Við erum með atkvæðagreiðslur. Við erum með tvö mál á dagskrá, flm. mælir fyrir málinu og síðan kemur fram ósk um að það fari til nefndar. Mér finnst þetta svolítið undarlegt og eins og ég sagði hefði mér fundist það viðurkvæmilegt að það hefði aðeins verið rætt við nefndarmenn alla hvort þeim þætti það góður kostur að málið kæmi beint til nefndarinnar.
    Þetta finnst mjög eðlilegt að a.m.k. fulltrúi frá stjórnarliði hér í nefndinni nefni, virðulegi forseti.