Stjórnsýslulög

118. fundur
Föstudaginn 26. febrúar 1993, kl. 12:42:34 (5541)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð. Ég vildi fagna undirtektum þeirra tveggja þingmanna sem um þetta mál hafa talað. Ég tel að sú vinna sem hefur verið lögð í frv. af þessu tagi hér áður og sú vinna sem hefur farið fram í þinginu muni nýtast mönnum vel í þessari vinnu þó hún hafi ekki skilað því að frv. yrði lögfest. Þess var gætt að hafa tengsl við fyrri vinnu og eins og fram kom hjá hv. þm. Steingrími Hermannsyni var formaður þeirrar nefndar sem undirbjó þetta frv. sá hinn sami og undirbjó frv. fyrir hann á sínum tíma. Í annan stað var tengiliður við umboðsmann Alþingis með þeim hætti að aðstoðarmaður umboðsmanns Alþingis átti sæti í þeirri nefnd sem undirbjó þetta frv. Ég tel til bóta að þannig hafi verið staðið að málum.
    Varðandi það sem nefnt var um stjórnsýsludómstól þá hefur þeirri nefnd sem starfaði að undirbúningi þessa frv., og hefur unnið mjög gott starf, verið falið að huga sérstaklega að því hvort rétt sé að stofna til slíks dómstóls og þá í hvaða formi hann skyldi vera jafnframt sem nefndinni hefur verið falið að undirbúa frv. til laga um upplýsingaskyldu stjórnvalda sem er þriðji hlekkurinn í þessari keðju sem þingið hefur verið að binda um stjórnsýslulegt réttaröryggi borgaranna í landinu.