Stjórnsýslulög

118. fundur
Föstudaginn 26. febrúar 1993, kl. 12:43:58 (5542)


     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Mig langar til að fagna því, eins og aðrir ræðumenn sem hafa talað, að þetta frv. er fram komið. Það er angi af ýmsum réttarfarsbótum sem unnið hefur verið að eða hrint hefur verið í framkvæmd á undanförnum árum og tvímælalaust horfa til heilla. Ég vil þar sérstaklega nefna starf umboðsmanns Alþingis og þau áhrif sem það embætti hefur þegar haft óumdeilanlega í fjölmörgum tilvikum. Það er enginn vafi á því að almenn stjórnsýslulöggjöf og það að geta vitnað í lagafyrirmæli af þessu tagi mun styrkja mjög og auka vægi embættis umboðsmanns Alþingis og aðfinnslna sem umboðsmaður kann að gera vegna meðferðar mála hjá hinu opinbera.
    Eftir stjórnsýslulögunum sem hér eru kynnt hefur víða verið lýst og er alls ekki óalgengt að þegar rædd er lagasetning af ýmsu tagi þá veki lögfróðir menn gjarnan athygli á því að ýmislegt væri óþarft í slíkri lagasetningu ef almenn stjórnsýslulög væru fyrir hendi. Staðreyndin er sú að með mismunandi skýrum hætti er mælt fyrir um framkvæmd á ýmsum málum í sérlöggjöf. Margt af því eru ákvæði sem ættu betur heima á einum stað í almennri stjórnsýslulöggjöf. Þess vegna verður það væntanlega svo að í kjölfar lagasetningar af þessu tagi verður unnt að endurskoða ýmis eldri ákvæði, fella þau brott og styðjast þess í stað við hinar almennu reglur stjórnsýslulaganna. Þetta mun væntanlega einnig hafa áhrif á lagsetningu í framhaldinu sem verður þá að ýmsu leyti einfaldari í sniðum þar sem nægir þá að vísa í almenn gildandi ákvæði í stjórnsýslulögum.
    Það eru nokkur atriði sem ég vil aðeins nefna og aðallega til að fagna. Ég vil í fyrsta lagi nefna ákvæði 7. gr. um leiðbeiningarskyldu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að stjórnvöld fái þannig skýrar skyldur til þess að aðstoða þá sem erindi eiga við stjórnvöld að bera þau upp og koma þeim á framfæri. Stjórnvöldum sé skylt að leiðbeina mönnum sem þurfa að leita ásjár hins opinbera og greiða þeim leið, ef svo má að orði komast, um kerfið sem mörgum manninum verður æðitorsótt að nálgast í gegnum allt það skrifræði og annað sem því fylgir.
    Ég tel að ákvæði eins og í 9. gr. um málshraða og í 13., 14. og 15. gr. um málsmeðferð, andmælarétt og upplýsingaskyldu séu allt saman mjög mikilsverð ákvæði. Að sjálfsögðu hafa hefðir skapast að nokkru leyti í þessum efnum. Það er til að mynda svo að í öllum samskiptamálum stjórnvalda og almennings þykir það sjálfsögð regla að andmælaréttur sé virtur eða fyrir hendi og getur veikt t.d. málstöðu hins opinbera í dómsmálum ef honum hefur ekki verið sinnt. En það breytir því ekki að það er best að hafa um það ótvíræða lagaskyldu að fyrir honum skuli séð.
    Það er aðeins eitt atriði sem ég við fljótan lestur á þessu frv. sakna og vil leyfa mér að koma á

framfæri við 1. umr. málsins. Ég hef a.m.k. í þessu frv. ekki rekið augun í ákvæði sem ég hefði átt von á, kannski er það sökum þess að ég hef ekki lesið það nógu vel en þó á ég ekki von á því því þetta er ekki ýkja flókið frv. í sjálfu sér, en það eru fyrirmæli eða reglur um hvernig erindum skuli svarað eða mér liggur við að segja að erindum skuli svarað.
    Í 7. gr. segir: ,,Berist stjórnvaldi skriflegt erindi, sem ekki snertir starfssvið þess, ber því að framsenda erindið á réttan stað svo fljótt sem unnt er.``
    Í 9. gr. er fjallað um málshraða en á hvorugum staðnum er beinlínis mælt fyrir um það með ótvíræðum hætti að það skuli vera ófrávíkjanleg regla í stjórnsýslunni að svara formlegum erindum sem berast. Við vitum það að á því er verulegur misbrestur. Til að mynda er það því miður svo að umboðsmaður Alþingis hefur á undanförnum árum margítrekað neyðst til að áminna ráðuneytin um að þau eigi að svara erindum. Jafneinfaldur hlutur og sá að tilkynna um móttöku á erindum er ekki fyrir hendi í öllum tilvikum.
    Þetta er auðvitað góð stjórnsýsluvenja, samskiptavenja, sem þarf alveg tvímælalaust að virða og ef ekki verður annað til á einfaldlega að mínu mati að hafa um það lagaákvæði.
    Ég hefði þess vegna talið, ef ég er þá ekki að misskilja þetta eitthvað eða mér hefur yfirsést eitthvað í þessu frv., að þarna væri á ferðinni atriði sem þyrfti sannarlega að athuga og setja einhvers konar reglur, jafnvel bæði um form og tímafresti í sambandi við það að formlegum erindum sem berast stjórnvöldum sé fortakslaust svarað. T.d. séu settar um það reglur í ráðuneytunum að móttaka erinda sé viðurkennd og síðan innan einhverra tímatakmarka fái menn fortakslaust svör. Þau svör geta að sjálfsögðu eftir atvikum ekki alltaf verið endanleg en þá er t.d. tilkynnt um að viðkomandi mál sé ekki sofnað í ráðuneyti eða stofnun eða annars staðar í stjórnsýslunni heldur sé til meðferðar, í vinnslu, í skoðun, og í fyllingu tímans verði það með einhverjum hætti afgreitt eða því lokið.
    Bæði í fyrri störfum sem ráðherra og oft sem þingmaður held ég að það sé með því algengasta sem kvartað er yfir úr samskiptum stjórnvalda og almennings að erindi liggi lon og don og þeim sé svarað seint og illa eða jafnvel aldrei og það jafnvel formlegum skriflegum erindum þar sem enginn vafi leikur á að viðkomandi er að óska eftir svari, er að óska eftir úrskurði eða úrlausn af einhverju tagi. Auðvitað getur það í sumum tilvikum orkað tvímælis hvort erindið er þess eðlis að því beri að svara eða til þess ætlast að því sé svarað, en þá þarf að bregðast við samkvæmt því, flokka slík mál eftir því hvort þeim sé skylt að svara eða ekki o.s.frv.
    Þetta atriði leyfi ég mér að nefna hér, hæstv. forseti, sem eiginlega það eina sem ég saknaði við fljótan yfirlestur á frv. af þeim ákvæðum til úrbóta sem maður hefði átt von á í frv. af þessu tagi. Af langri reynslu mundi ég telja að þetta væri eitt af því sem almenningi, þolendunum, þeim sem eiga viðskipti við stjórnsýsluna, væri hvað kærkomnast að með ótvíræðum hætti yrði gengið frá.
    Að öðru leyti, hæstv. forseti, ítreka ég það að ég fagna því að þessi löggjöf er fram komin og vonandi vinnst okkur tími til að afgreiða hana. Ef ekki nú á þessu þingi þá hinu næsta. Það er kannski ekki aðalatriði málsins nákvæmlega hvenær þetta gengur í gildi því það þarf auðvitað líka að vanda mjög svona löggjöf og ,,vel þarf að vanda það sem lengi á að standa`` eins og þar stendur. Það er mikilvægara af tvennu að það sé gert en endilega að hraða afgreiðslu þess. En það er auðvitað engin spurning að það verður mikil framför af því að fá löggjöf af þessu tagi.