Stjórnsýslulög

118. fundur
Föstudaginn 26. febrúar 1993, kl. 12:53:21 (5543)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. undirtekir hans við þetta mál. Ég nefndi það í upphafi að það væri æskilegt að málið yrði afgreitt á þessu þingi. Ég get tekið undir með honum að það er ekki neitt sem knýr á um það nema bara hið almenna að því fyrr sem slíkar reglur eru settar þeim mun fyrr eykst öryggi borgaranna hvað þetta varðar. Ég vek reyndar athygli á því að það er heilmikið inntak í þessum málum að menn eiga að forðast í stjórnsýslunni að afgreiða ekki mál án ástæðulausrar tafar og sama mætti segja um okkur í þinginu ef um þetta mál getur reynst sæmileg sátt. Ég tek hins vegar undir með hv. þm. að ef mönnum finnst margt athugavert í frv. þá er betra að taka tíma til þess að fara yfir það en hraða því í gegn. Ég vænti þess og mér heyrist það á undirtektum hér að búast mætti við því að málið gæti gengið í gegn jafnvel þó á það yrði ekki lagður neinn ofurþrýstingur sem ekki verður gert af minni hálfu.
    Varðandi það atriði sem hv. þm. nefndi þá má segja að í þessu frv. sé reynt að tryggja fyllilega að öll þau erindi sem ákvörðun kallar á sé svarað. Það er nákvæmlega tilgreint í hinum ýmsu greinum hvernig menn beri sig að ef ákvörðun dregst. Þá þarf að tilkynna um það, skýra dráttinn og skýra frá meðferð þess. Ef erindið hefur lent á villigötum þá getur stjórnsýsluaðili ekki notfært sér það til þess að setjast á málið. Honum ber að hafa frumkvæði að því að koma því í réttan farveg. Þannig er bæði varðandi þær almennu leiðbeiningarreglur sem þingmaðurinn nefndi er komið að þessum þætti, einnig varðandi málshraðann og jafnframt í 20. gr. varðandi birtingu ákvörðunar. Hins vegar er það svo að stjórnvöldum, ráðuneytum til að mynda, berst gríðarlegur fjöldi mála sem bera það með sér að í sjálfu sér er ekki óskað svara við slíkum erindum. Þetta eru alls kyns ályktanir þar sem vikið er almennt að málum sem jafnvel er sent í dreifiritum til mjög margra aðila. Í sjálfu sér er ekki bein ástæða til þess að slíkum erindum sé svarað nema þá eingöngu með þeim hætti, eins og hv. þm. nefndi, að með einföldum hætti sé kannast við að slíkt erindi hafi borist og staðfesting á því gefin. Ég tala ekki um ef eftir því er óskað. En þetta er sjálfsagt auðvitað að hv. nefnd skoði sérstaklega milli 1. og 2. umr.