Flutningar á járnbrautum

119. fundur
Miðvikudaginn 03. mars 1993, kl. 14:01:52 (5547)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Mér þykir leiðinlegt að taka þátt í þessum skrípaleik en ég vil leiðrétta hv. þm. Þetta er ekki fyrsta fjarstæðukennda frv. sem Alþingi hefur þurft að fjalla um vegna EES. Ég vil alla vega taka með 2. mál þingsins, sem hefur þegar verið rætt, um vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum sem hér urðu nokkrar umræður um og t.d. forstöðumaður Iðntæknistofnunar er maður til að viðurkenna að hann viti ekkert um og telji ekki þörf á að vita nokkurn skapaðan hlut um. Í greinargerð með því frv. kemur skýrt fram að það frv. varðar Íslendinga ekki nokkurn skapaðan hlut og ekki fyrirsjáanlegt að það muni gera það í framtíðinni. Þessi skrípaleikur er líka mjög alvarlegur.