Flutningar á járnbrautum

119. fundur
Miðvikudaginn 03. mars 1993, kl. 14:03:17 (5548)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er að vísu rétt hjá hv. þm. að umfjöllun þingsins um það frv. um hálfleiðara sem hún nefndi var þinginu ekki til sóma. Það kom í ljós að nefndin botnaði ekkert í frv. og það varð að fara aftur til meðferðar. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson tók að sér að hagnýta sér doktorsnám sitt til að reyna að útskýra fyrir þinginu hvað í frv. fælist eins og við munum. ( GHelg: Hann gerði það ekki rétt.) Nei, og gerði það þó ekki rétt. Nei, akkúrat. ( Gripið fram í: Þrátt fyrir doktorsprófið.) Þrátt fyrir doktorsprófið.
    En hins vegar er sá munur að hér er verið að fjalla um hluti sem hver og einn landsmaður veit um. Járnbrautir og skip sem sigla eftir skipgengum vatnaleiðum. Hér er ekki verið að fjalla um eitthvað hátæknilegt atriði í framþróun vísinda og tækni. Hér er verið að fjalla um lykilþætti í samgöngukerfum annarra landa en Íslendinga sem snerta á engan hátt þann hversdagslega veruleika sem Íslendingar eiga við að búa þótt það sé mikilvægt atriði í hversdagslegum veruleika Þjóðverja, Hollendinga og annarra. Spurningin er þess vegna: Eigum við að fara að festa í fyrsta sinn í lögbókina hluti sem eru mikilvægir fyrir hversdagslegan veruleika og daglegt líf og efnahagslíf þessara þjóða en snerta ekki í neinu hversdagslegan veruleika og efnahagslíf okkar Íslendinga?