Flutningar á járnbrautum

119. fundur
Miðvikudaginn 03. mars 1993, kl. 14:05:45 (5550)

     Árni Johnsen :
    Virðulegi forseti. Það ríður ekki við einteyming hvernig hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hefur allt á hornum sér. Jafnvel í sakleysislegu frv. sem fjallar um eimreiðir og tilheyrandi þætti og minnir kannski á að hv. þm. talar æðioft sem eimreiður. Þetta er kannski sérstaklega furðulegt með tilliti til þess að hv. þm. minnir æðioft á það hvernig járnbrautir liðast um löndin með tilheyrandi hávaða gömlu kolakyntu eimreiðanna.
    Það er kominn tími til að biðja virðulegan forseta að benda hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni á að hann sé ekki sjálfskipaður siðameistari Alþingis í orðskýringum. Til að mynda að þingið væri að hlæja að sjálfu sér. Það kann að vera skoðun hv. þm. en ég hef nú grun um að ýmsir þingmenn hafi brosað að öðru en því þegar þetta mál hófst.
    Það má velta ýmsum hlutum upp í sambandi við þetta frv. Með tengingu við söguna og reynslu á Íslandi er auðvitað ekki svo galið að hafa slíkt frv. við að styðjast hvort sem framtíðin kallar á þörf fyrir það eða ekki. Auðvitað eru vatnaleiðir á Íslandi. Það eru skipgengar vatnaleiðir á Íslandi. Það eru vatnadrekar skráðir á Íslandi og þeir flokkast sem skip. Það er kannski óþarfi að vera að fjalla um þetta í þessu samhengi en það eru til svæði utan Reykjavíkur sem þarf að fara um á bátum og loftpúðum og vatnadrekum. Þetta flokkast undir það sama. Hv. þm. ætti því kannski að vanda orðaval sitt í þessum sjálfskipuðu orðskýringum.
    Það hafa líka verið járnbrautir á Íslandi. Að vísu ekki með mjög löngum teinum. En til að mynda var járnbraut í Reykjavík á fyrri hluta þessarar aldar sem flutti efni úr Skólavörðuholti í hafnargerð. Eimreiðin er til enn þá. Það var járnbraut í Vestmannaeyjum við byggingu hafnarmannvirkja þar og á Ísafirði og reyndar víðar. Saga járnbrauta er því til á Íslandi hvað sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson segir. Þó þær séu ekki gangfærar enn þá er a.m.k. ein gangfær að því er virðist. Það hefur komið fram í ræðustól

hér í dag.