Flutningar á járnbrautum

119. fundur
Miðvikudaginn 03. mars 1993, kl. 14:54:02 (5559)

     Steingrímur Hermannsson :
    Herra forseti. Ég stend eiginlega fyrst og fremst upp til að taka upp vörn fyrir hæstv. samgrh. Það er alveg að ósekju verið að deila á hann. Hann er ekkert nema verkfæri í höndum sinnar ríkisstjórnar sem hefur ákveðið að ganga í EES og honum hefur verið sagt að flytja þetta mál.
    Það mætti vitanlega segja margt um járnbrautir og vatnavegi. Vitanlega verður þetta allt að vera í stíl og augljóst að járnbrautarteinar verða að vera þannig að unnt sé að skipta og keyra yfir á þá lest EES ef svo vill til.
    Mér finnst hitt miklu alvarlegra mál að ekki skuli vera hægt að fá hingað utanrrh. og forsrh. Ég vil benda þeim á sem hafa krafist þess að þeir komast ekki með tærnar þar sem hv. þm. Halldór Blöndal hafði hælana fyrir tveimur til þremur árum. Hann hefði ekki farið úr ræðustól fyrr en þessir ráðherrar væru mættir. Það er töluvert annað en sú kurteisi sem nú er sýnd.
    Ég vildi einnig nefna að í ræðu sem ég flutti hér í umræðu um EES lýsti ég furðu minni á því að til stæði að lögfesta hér mjög margar --- þær skipta hundruðum --- tilskipanir frá Brussel. M.a. nefndi ég tilskipun sem fjallar um ljós á bifreiðum. Utanrrh. lýsti undrun sinni á því að slíkt þyrfti að lögfesta eða virtist ekki kannast við það. Ég hefði getað nefnt þar fjölmargt fleira eins og dekk undir bílum og ég veit ekki hvað og hvað. Ég nefndi þá að þetta kom mér afar mikið á óvart því þegar við könnuðum í upphafi hvað fylgja mundi hugsanlegri aðild að EES þá var skýrt tekið fram að eingöngu yrði nauðsynlegt að krefjast þess að þær tilskipanir yrðu lögfestar hér sem hefðu eitthvert erindi til okkar, sem fjölluðu um eitthvað þar sem íslensk hagsmunamál og hagsmunamál Evrópu féllu saman. T.d. yrði alls ekki um það að ræða að lögfesta hér tilskipanir um einhverja staðla fyrir framleiðslu sem alls ekki væri framleidd hér og kæmi okkur þess vegna ekkert við.
    Á þessu hefur orðið stórkostleg breyting og ég hygg miklu alvarlegri breyting en þetta fáránlega frv. sem hér liggur fyrir. Því í tilskipunum frá Brussel, frá EB, eru fjölmargar tæknilegar viðskiptahindranir. T.d. er þetta með ljósin ekkert annað en tæknileg viðskiptahindrun til að gera Bandaríkjamönnum og Japönum erfiðara með að flytja inn á Evrópumarkað. Meira að segja, ef ég man rétt, er í þeirri bók sem við fengum með yfir 175 tilskipunum sem verið er að athuga hvort ekki verði nauðsynlegt að lögfesta hér sagt um ákveðin dekk sem á að nota undir ákveðnar bifreiðar að það verði að kanna hvort ekki sé hægt að heimila amerísk og japönsk dekk. Þetta er miklu alvarlegra mál en þessi vitleysa með járnbrautir og vatnavegi sem hæstv. samgrh. lætur hafa sig í að flytja. Það er eins og hvert annað skítverk.
    Ég vil bara vekja athygli á þessu. Málið er í raun afar stórt. Við Íslendingar þurfum áreiðanlega að gæta okkar mjög á því að dragast ekki inn fyrir tæknilega viðskiptamúra EB sem eru gífurlega miklir og þar sem allt er gert til að vernda þá framleiðslu sem þar er. Þetta held ég að sé í raun hinn alvarlegi þáttur málsins. Það skiptir engu máli hvort þetta verður að lögum en ef allt hitt fylgir á eftir þá er það orðið hið alvarlegasta mál.