Flutningar á járnbrautum

119. fundur
Miðvikudaginn 03. mars 1993, kl. 14:58:43 (5560)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ýmsum tilmælum efur verið beint til hæstv. samgrh. í þessum umræðum. Hann hefur greinilega kosið að svara þeim ekki. A.m.k. ekki að sinni. Einnig hefur verið óskað eftir að hæstv. utanrrh., sem fer með samninga Íslands við önnur ríki, sé viðstaddur umræðuna vegna þess að einu rökin fyrir því að þingið eigi að fjalla um þetta frv., sem samgrh. var hér með, er samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði sem er á verksviði hæstv. utanrrh. Það eru einu rökin sem hér hafa komið fram fyrir utan þær fyndnu röksemdir frá hv. þm. Árna Johnsen að vegna þess að hér voru járnbrautir um aldamótin sé nú komið tilefni og tími til að setja lög um þá starfsemi.
    Það hefur líka verið talið nauðsynlegt að hæstv. forsrh. kæmi til umræðunnar vegna þess að hér erum við að ræða hvaða form íslensk löggjöf eigi að taka almennt séð á grundvelli samningsins um Evrópskt efnahagssvæði. Þau mál heyra með margvíslegum hætti undir verkstjórn hæstv. forsrh. Ég vil þess vegna fara fram á það, hæstv. forseti, að þessari umræðu verði nú frestað. Ég á rétt til að tala hér aftur samkvæmt þingsköpum og hafði ætlað mér að gera það þegar hæstv. ráðherrar væru komnir til umræðunnar því málið er þess eðlis að það er ekki hægt að fullkomna skrípaleikinn með því að fara með þetta hér í gegn eins og þetta sé bara venjulegt frv. Ég ætla ekki að taka þátt í því, hæstv. forseti. Þess vegna fer ég fram á það um leið og ég bið um orðið, virðulegur forseti, að þessari umræðu verði frestað þar til hæstv. forsrh. og utanrrh. geta ásamt samgrh. verið viðstaddir framhald umræðunnar.