Flutningar á járnbrautum

119. fundur
Miðvikudaginn 03. mars 1993, kl. 15:08:18 (5567)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Hæstv. samgrh. er eitthvað argur í sinni og er leitt að svo sé. Vona ég að það verði ekki langvarandi. Ég vil upplýsa hæstv. ráðherra um það að hæstv. utanrrh. var í salnum þegar hæstv. samgrh. hóf mál sitt og var að flytja framsöguræðu sína um þetta mál. Ég og fleiri héldum þess vegna að hæstv. utanrrh. ætlaði að vera áfram viðstaddur þessa umræðu. Nú segir hæstv. samgrh. að við hefðum átt að hlaupa til hans og segja honum frá því þegar utanrrh. var horfinn úr salnum að við vildum að hann væri hér. Þá var hæstv. ráðherra í ræðustól. Ég er eiginlega alveg hættur að skilja þetta, hæstv. ráðherra. Utanrrh. var í þingsalnum þegar umræðan hófst og ég hélt einfaldlega að hann ætlaði sér vegna tengsla málsins við Evrópskt efnahagssvæði að vera hér áfram.
    Ég heyri nú að ráðherrann er farinn að berja í borið á þann táknræna hátt sem lýsir ákveðnu hugarástandi sem við öll þekkjum hér í salnum og ég ætla þess vegna ekki að ræða þetta mál frekar en aðeins upplýsa ráðherrann um það að ástæðan fyrir því að ég beið með að biðja um orðið var að hæstv. forseti hafði sagt mér að einn þingmaður væri enn á mælendaskránni. Það getur hæstv. forseti staðfest og hefur þegar gert núna með höfuðhneigingu sinni. Það var eina ástæðan. Þess vegna er veruleikinn oft miklu einfaldari, hæstv. ráðherra, og engar samsæriskenningar þurfa að vera hér í gangi um vinnubrögð okkar. Þetta er bara einföld ósk okkar um að ræða örfá atriði sem tengjast þessu máli. Nú vona ég að við getum öll verið glöð í sinni, hæstv. ráðherra, og hættum að berja í borðið með þessum hætti.