Frágangur fjárlaga 1993

120. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 10:31:57 (5571)

     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir) :
    Hæstv. forseti. Í tíð síðustu ríkisstjórnar varð nokkur umræða um frágang fjárlaga og snerist sú umræða um að skuldbindingar sem ríkissjóður tæki á yfirstandandi fjárlagaári væru sýndar þó að þær kæmu ekki til greiðlu á því sama ári.
    Sú fsp. sem liggur fyrir á þskj. 650 fjallar hins vegar um tekjuhlið fjárlaga og snýst um það að 4 milljarðar, sem lagðir voru aukalega í skatta á landsmenn skömmu fyrir jól, eru ekki sýnilegir í fjárlögum. Ég gerði því fsp. til formanns fjárln. sem sendi hana áfram til hæstv. ráðherra um hvort þetta gæti talist eðlilegt. Rök fjmrn. voru þau að skattahækkunin væri tekjur sveitarfélaganna þar sem henni sé ætlað að koma í stað aðstöðugjalds sem fellt hefur verið niður og sé einungis ráðstöfun til eins árs. Þó þetta væri rétt er fráleitt að sýna ekki tekjur og gjöld upp á 4 milljarða í fjárlögum ríkisins. Auk þessa er þetta heldur ekki rétt. Hér er ekki um að ræða tekjur sveitarfélaganna að mínu mati heldur greiðslu úr ríkissjóði til að bæta sveitarfélögunum missi aðstöðugjaldsins og greiðslur úr ríkissjóði eiga að koma fram í fjárlögum. Ég hef því leyft mér að spyrja hæstv. fjmrh. spurninga á þskj. 650 sem hljóða svo, með leyfi forseta:
  ,,1. Telur ráðherra það samrýmast lögum um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga, nr. 52/1966, að auknar skatttekjur ríkissjóðs vegna efnahagsráðstafana ríkisstjórnarinnar, að upphæð 4 milljarðar króna, koma ekki fram í fjárlögum 1993?
    2. Verða lögð fram fjáraukalög til leiðréttingar á fjárlögum ársins 1993 vegna þessa?
    3. Hvernig koma umræddir 4 milljarðar króna fram í ríkisreikningi ársins 1993 ef þá verður ekki að finna í fjárlögum eða fjáraukalögum þess árs?``
    Hæstv. fjmrh. beitti sér mjög á sínum tíma í tíð fyrrv. hæstv. fjmrh., Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrir því að ríkisreikningur og fjárlög væru sem næst hvort öðru þannig að auðvelt væri að tryggja að eftirlit væri haft með ríkisfjármálum og auðvelt væri að sjá þær tölur sem að baki lægju. Ég taldi því rétt að leita svara hjá hæstv. ráðherra hvað hefur gerst sem hefur breytt þessu viðhorfi eftir því sem svar fjmrn. gefur til kynna.