Frágangur fjárlaga 1993

120. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 10:53:49 (5580)

     Karl Steinar Guðnason :
    Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið, þá er hér um umdeilanlega hluti að ræða. Við höfum deilt í þingsal um færslur eins og þessar áður og rétt eins og komið hefur fram að ríkisreikningsnefnd hefur verið að móta reglur um það hvernig með skuli fara.
    Eins og fram kom hjá hæstv. fjmrh. þá er líklegt að þegar sú nefnd hefur skilað áliti, þá muni tekjur og gjöld hækka um allt að 20%. Ég tel að það hefði verið mjög gott ef þessi umræða hefði getað farið fram fyrir samþykkt fjarlaga. Það gerðist ekki og fann enginn að því að þessi háttur yrði á hafður, sjálfsagt vegna þess að það er svo margt sem hefði mátt taka upp og mörgu breyta, enda deilur verið uppi um það hvernig færslur eigi að eiga sér stað.
    Það hefur þó komið fram að ríkisreikningsnefnd muni skila áliti eða ljúka störfum í lok þessa árs, 1993, og vænti ég þess að það geti orðið að þessu máli verði þannig breytt að menn þurfi ekki sífellt að vera að deila um það hvernig hlutunum verði fyrir komið. Ég veit að nefndin er að vinna af fullum krafti og ég legg áherslu á það að hún skili áliti sem allra fyrst.
    En eitt er það sem ég vil þó segja að hér er ekki um neinn feluleik að ræða. Það er rangur málflutningur að mínu mati. Það verður gerð grein fyrir öllu sem fram fer er lýtur að þessum liðum og ætti því að vera mjög skýrt gagnvart hv. alþm.