Frágangur fjárlaga 1993

120. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 10:56:01 (5581)

     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir) :
    Hæstv. forseti. Fyrst vil ég þakka þeim sem tekið hafa til máls og er ekki þar með að gefa í skyn að þeir kunni ekki að verða fleiri, en hér eru nokkur atriði sem ég vil gera athugasemd við sem komu fram í málflutningi hæstv. ráðherra.
    Hér er auðvitað ekki um að ræða tekjur sveitarfélaganna heldur greiðslu úr ríkissjóði til að bæta sveitarfélögunum missi aðstöðugjaldsins og greiðslur úr ríkissjóði eiga að koma fram í fjárlögum. Auk þess er óvíst hvort þessi viðbótarskattlagning fer öll til sveitarfélaganna því að í athugasemd við frv. um breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem samþykkt var fyrir síðustu jól segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í þessu bráðabirgðaákvæði er lagt til að á árinu 1993 verði aðstöðugjald lagt á með sama hætti og verið hefur og í fullu samræmi við ákvæði V. kafla laganna um tekjustofna sveitarfélaga. Sveitarstjórnir skulu þó ekki taka nýjar ákvarðanir um gjaldstig og gjaldflokka aðstöðugjaldsins heldur skal gilda óbreytt ákvörðun sveitarstjórna um þetta efni frá árinu 1992. Aftur á móti er lagt til að innheimta gjaldsins falli niður og til að bæta sveitarfélögunum upp það tekjustap er lagt til að þau fái hlutdeild í tekjuskatti ríkisins sem nemi 80% af álögðu aðstöðugjaldi samkvæmt aðstöðugjaldsstofni í öllum sveitarfélögunum miðað við árið 1992, með þeim breytingum til hækkunar eða lækkunar sem gerðar verða við yfirferð framtala og úrskurð á kærum.``
    Hér er því ekki um að ræða upphæð sem fer inn og út og þó að svo væri, þá áttu auðvitað þessar tekjur samt að sjást.
    Ég vil einnig mótmæla þeirri fullyrðingu ráðherra þegar hann minntist á fundinn sem haldinn var í fjárln. 18. des. sl. Það var ekki bent á að þetta ætti ekki að koma í tekjuhlið fjárlaga, alls ekki. Það var farið yfir fyrirhugaða skattlagningu en ég hygg að allir meðnefndarmenn mínir í fjárln. geti staðfest það að ekki lá ljóst fyrir á þeim fundi að svona skyldi með fara og fylgirit með fjárlögum kom eftir að Alþingi var búið að samþykkja fjárlögin.
    Hæstv. forseti. Ég skal ljúka máli mínu. Í endurskoðun ríkisreiknings, frá Ríkisendurskoðun og yfirskoðunarmönnum ríkisreiknings, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    Þeir telja að ,,nauðsynlegt sé að samræma enn betur en gert hefur verið uppsetningu fjárlaga og ríkisreiknings. Þeir leggja áherslu á að fjárlög og ríkisreikningur verði á sambærilegum grunni og að tölur á bak við hvern lið eigi sér sama uppruna.``
    Þessu erum við sammála. Þessu var hæstv. ráðherra sammála á meðan hann var ekki ráðherra og lagði mjög hart að hæstv. þáv. fjmrh. Ólafi Ragnari Grímssyni þegar skuldbindingar ríkissjóðs á Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins voru á dagskrá, þá tóku þeir mjög upp í sig, hæstv. núv. ráðherra og hv. þm. Pálmi Jónsson. Munurinn á þeim tveimur var hins vegar sá að hv. þm. Pálmi Jónsson er enn sömu skoðunar og ég hef ævinlega verið sömu skoðunar og hann um þessi efni og ég tel það mikið alvörumál ef fjárlög íslenska ríkisins eru notuð til þess að blekkja skattborgarana svo að prósentutala á skattálagningu verði lægri en hæstv. ráðherra líkar að sýna mönnum.