Sveitarstjórnarlög

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 11:34:44 (5589)

     Jón Kristjánsson :
    Frú forseti. Þetta ákvæði sveitarstjórnarlaga sem frv. gerir ráð fyrir að breyta er hálfgerður bastarður. Ég vil fullyrða það varðandi sameiningarmálin og byggi það á reynslu minni í sveitarfélaganefnd, þar sem ég á sæti ásamt hv. flm., að þetta ákvæði hér flýtir ekki fyrir sameiningu sveitarfélaga. Þetta ákvæði er eitur í beinum fólks. Því finnst það stríða gegn lýðræðinu og það er nátturlega andstætt lýðræðishefð að sá sem situr hjá teljist greiða atkvæði með. Þetta ákvæði, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, mun tefja fyrir sameiningu sveitarfélaga og hleypa illsku í þau mál fremur heldur en flýta fyrir þeim. Þess vegna hafa menn auðvitað komist að þeirri niðurstöðu í fulltrúaráði Sambands ísl. sveitarfélaga og áreiðanlega hefur formaður nefndarinnar komist að þeirri niðurstöðu líka að það væri rétt að atkvæðagreiðsla færi fram í hverju og einu sveitarfélagi. Ef hv. þm. hafa skilið orð ráðherra þannig að fulltrúar í sveitarfélaganefnd væru búnir að skrifa undir einhverja lögþvingun með þessum hætti, að skrifa undir áfangaskýrsluna, þá er það rangt. Áfangaskýrslan var til þess að kynna leiðir til umræðu og niðurstöður þeirrar umræðu liggja nú fyrir og hafa leitt til verulegra breytinga sem munu væntanlega birtast í lokaskýrslunni. Ég tel að þær breytingar séu til góðs. Ég er þeirrar skoðunar. Ég er fylgjandi sameiningu sveitarfélaga. Ég tel að það sé þróun sem verður. En ég hef alltaf verið andvígur lögþvingun í þeim efnum. Ég tel að slíkt tefji fyrir sameiningu, tefji fyrir góðu samstarfi sveitarfélaganna sem á að sameina þó þetta hafi sloppið hingað til þar sem þessi tilvik hafa komið upp. En ef það ætti að fara að nota þetta kosningafyrirkomulag, sem þessi grein gerir ráð fyrir, í stórum sameiningum og þvinga kannski tvö eða þrjú sveitarfélög á stærri svæðum með þessum hætti til sameiningar þá held ég að það sé hin versta staða sem getur komið upp úr því í samstarfinu. Ég segi fyrir mig að það er miklu betra að þessi sameiningarmál taki einu, tveimur eða þremur árum lengri tíma en það sé allt í deilum og sárindum sem koma upp úr slíkum lögþvingunum. Ég held að sú stefna sem þessi mál hafa tekið nú sé til góðs og hef von um að þessi mál fái farsæla niðurstöðu. Ég vil undirstrika að áfangaskýrsla sveitarstjórnanefndar var plagg sem átti að leggja til umræðu og hefur verið rædd í sveitarfélögum víða um land og í samtökum sveitarfélaga sem hafa skilað um hana umsögnum. Fulltrúaráðið hefur sett fram ákveðnar hugmyndir þannig að ég er ánægður með

það ferli sem hefur verið síðan skýrslan kom fram. Ég hygg að hún leiði til þess að menn hverfi frá þessum lögþvingunarhugmyndum sem ég hef alltaf verið andvígur og hef alls ekki skrifað undir þó áfangaskýrslan kynnti þessa leið, vegna þess að ég var með almennan fyrirvara við skýrsluna um að lokaafstaða yrði ekki tekin fyrr en að sú umræða hefði farið fram sem hefur farið fram á síðustu vikum.