Sveitarstjórnarlög

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 11:49:49 (5594)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarsyni fyrir að leggja fram þetta frv., sem er eins sjálfsagt og eðlilegt og nokkurt frv. getur verið eins og kemur fram á fulltrúaráðsfundi Sambands ísl. sveitarfélaga, sem einmitt er að álykta í þessa veru. Það er auðvitað spurningin: Hvernig stendur á því að það gengur svona hægt að sameina sveitarfélögin? Það er vegna þess að það er viss neikvæð umræða í gangi. Það er neikvæð umræða. Ríkisvaldið er að þrýsta of hratt og það veldur vissri hræðslu hjá sveitarstjórnarmönnum og íbúum sveitarfélaganna. Þeir vilja fá að ráða þessum málum sjálfir. Hæstv. félmrh. sagði áðan --- ég gat ekki skilið orð hennar öðruvísi --- að fljótvirkasta leiðin sé að þetta komi ofan frá og menn séu ekkert að kjósa um sameiningu. Lýðræðið er nú einu sinni þannig að það er svolítið seinvirkt en við höfum kostið að hafa lýðræðislega skipan mála og við verðum að fylgja því eftir í öllu. Þess vegna er þetta ,,lapsus`` í núverandi lögum og hér er gerð tillaga um breyta því á þann veg að einfaldur meiri hluti í sveitarfélagi ráði því hvort um sameiningu sé að ræða.
    Fyrst ég er komin upp til að ræða um sameiningu á annað borð þá held ég að fundur fulltrúaráðs Sambands ísl. sveitarfélaga, sem haldinn var í Keflavík um sl. helgi, marki viss tímamót. Þar var m.a. verið að tala um, eins og kemur fram í ályktun, að komið verði á fót sérstökum umdæmisnefndum í landshlutum er leggi fram tillögur um skiptingu umdæmis í sveitarfélög að teknu tilliti til skoðana sveitarstjórna og íbúa svæðisins. Það hefur nefnilega allt of lítið verið gert af því að tala við íbúa svæðisins. Þetta hefur verið mjög ,,lókal`` umræða. Þetta hefur verið umræða hjá ríkisstjórn og sveitarstjórnarmönnum en umræðan hefur ekki náð almennilega til íbúanna sjálfra og hvað þeir vilja.
    Svo ég haldi áfram að vitna í þessa ályktun frá þessum umtalaða fundi þá segir jafnframt:
    ,,Umdæmisnefndirnar sjá um kynningu og kosningu tilhögunar í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir.`` --- Það er búið að færa þetta nær íbúunum sjálfum. Það er búið að færa umræðuna frá ríki og mönnum sveitarstjórna til íbúanna. Það sem einmitt vantar er umræða um það hvaða hag hvert sveitarfélag hefur af sameiningunni. Það vita íbúarnir sjálfir heima fyrir best.
    Ég vona að sú umræða sem fór fram á fundinum í Keflavík verði einmitt til að færa þessa umræðu heim í hérað. Það er mjög mikilvægt og eina ráðið til að um nokkra sameiningu verði að ræða.