Sveitarstjórnarlög

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 12:09:56 (5599)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hygg að við hv. þm. séum ekki sérlega ósammála í þessu máli og kannski er meginatriðið í máli okkar beggja að fyrst og fremst á að leita eftir hagkvæmni án þess að ganga á rétt íbúa. Það held ég að sé stærsta atriðið sem við getum verið sammála um að það verður að sjálfsögðu að gæta þess lýðræðis að íbúar hafi eitthvað með slíka sameiningu að segja.
    Í öðru lagi er ég honum hjartanlega sammála um að það þarf að kanna mjög vel allt það sem til hagræðingar má verða og kannski til þess að uppræta ákveðna samstarfsörðugleika en það verður að gera það í fullri sátt við íbúa hér á þessu svæði sem annars staðar á landinu. Það er kannski grundvallaratriðið.
    Ég held því miður að við eigum langt í land með að vinna heimavinnuna okkar í sameiningarmálum hér á þessu svæði vegna þess að kynning hefur ekki legið fyrir. Hér er eitt geypistórt sveitarfélag og ég hef varpað fram mínum efasemdum um það hvernig samstarfi sveitarfélaga af mjög ólíkri stærð geti verið háttað og hvernig lýðræði geti verið háttað innan þessara sveitarfélaga. Ég er ekki að segja að það útiloki að hægt sé að sameina mjög stórt, heldur að benda á að það verður alltaf að gæta að hinum minnstu einingum sem eru íbúarnir sjálfir og að þeirra réttur sé virtur og ekki fótumtroðinn.