Sveitarstjórnarlög

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 12:44:37 (5605)

     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hef áður látið það koma fram í þingræðu að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, er hann gegndi ráðherraembætti, gekk fram í því að kalla til samstarfs og samráðs fjölda einstaklinga til að komast í botn á hverju máli eins og frekast var kostur og leita allra leiða svo að satt mætti reynast í hverju máli. Þannig skipaði hann nefndir ofan á nefndir, starfshópa ofan á starfshópa. Mér líkuðu þessi vinnubrögð vegna þess að þau voru í anda okkar sem komum inn á þing 1978, hæstv. ráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur, hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, mín, Vilmundar heitins Gylfasonar, Karls Steinars Guðnasonar hv. þm. o.fl. Þannig vona ég að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hafi starfað í sínu ráðuneyti og þannig starfar hæstv. ráðherra Jóhanna Sigurðardóttir einmitt í því máli sem hér er til umræðu varðandi undirbúning að sameiningu sveitarfélaga, að kalla til samráðs, samstarfs og samvinnu eins marga og kostur er og fara sem víðast í staðinn fyrir að kalla fólk hingað suður til Reykjavíkur, kannski eins og hefur verið vani margra ráðherra í gegnum tíðina, en að fara á vettvang og kynna sér aðstæður eins og frekast er kostur og á Suðurnesjum líka, náttúrlega. Hæstv. ráðherra hefur ekki lögþvingað neina sameiningu. Hefur ekki beitt neinum bolabrögðum við neina sameiningu, þvert á móti reynt að undirbúa þetta mál eins og frekast er kostur.
    Það sem ég var að leggja áherslu á var að heimafólk á að ráða hvort sveitarfélög sameinast. Ég talaði til Suðurnesjanna og tók það svæði sem dæmi þar sem sameining ætti að liggja beinast við. Að lokum er mikilvægt það er snýr að hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni. Hver er hans afstaða til sameiningar sveitarfélaga á Suðurnesjum og t.d. til sameiningar sveitarfélaga eins og Reykjavíkur og Seltjarnarness? Ég

er viss um að kjósendur á þessum svæðum bíða eftir að hann hafi skoðun á því.