Sveitarstjórnarlög

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 12:47:16 (5606)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála meginhlutanum í því sem hv. þm. var að segja. Ég tel að vísu að greining hans á framgöngu félmrh. í þessu máli sé á misskilning byggð. Sú framganga er ekki í anda þeirra lýðræðislegu vinnubragða sem við töluðum um hér 1978. Hún er miklu frekar í anda ráðríks stjórnkerfis sem er að reyna að beita aðferðum til að knýja menn inn í farveg sem ráðherrann er fyrir fram búinn að ákveða. Það var ekki lagt upp í þessa för með því að spyrja sveitarstjórnarmenn úti um allt land með víðtækri umræðu: Finnst ykkur skynsamlegt að fara í sameiningu? Það var ekki gert. Heldur var skipuð tiltölulega þröng nefnd, að vísu með fulltrúum frá einhverjum flokkum, en hún var látin komast að þeirri niðurstöðu að það væri kannski skynsamlegast að hafa 25 sveitarfélög. Og með þá tölu að vopni var farið í hringferðina. Menn hafa gjörsamlega farið öfugt í þetta. Mín skoðun er sú að það sé fólkið í sveitarfélögunum sem eigi að ákveða þetta. Þess vegna er þetta frv. hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar flutt. Það er ekki flutt að tilefnislausu. Það er til að festa í lögbókina rétt fulltrúa fólksins til að ráða þessu.
    Í minni heimabyggð, Seltjarnarnesi, er ég þeirrar skoðunar að það eigi ekki að sameinast Reykjavík. Ég hef sagt það afdráttarlaust á opnum vettvangi, ég hef sagt það á fundi með þingmönnum og sveitarstjórninni þessu byggðarlagi, vegna þess að ég vil ekki fórna því lýðræði sem þrátt fyrir allt ríkir í þessu bæjarfélagi að mörgu leyti með ágætum þótt Sjálfstfl. hafi verið þar í meiri hluta í bæjarstjórninni svo lengi sem ég man. Hvað Suðurnesjamenn snertir er það nákvæmlega það sama. Ég hef sagt þeim það að það er þeirra ákvörðunarvald. Þeir hafa komið sér upp samvinnu á fjölmörgum sviðum en við höfum líka séð kostina í því að þeir hafa getað verið sér með ýmis mál í sjálfstæðum sveitarfélögum vegna þess að á Suðurnesjum eru bæði fáein stór en líka nokkur mjög lítil sveitarfélög.