Sveitarstjórnarlög

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 12:49:18 (5607)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Oft hefur nú málflutningur síðasta ræðumanns gengið fram af mér en kannski aldrei eins og nú. Hér er talað um að ég sé að klúðra sameiningunni, ég sé að beita ráðstjórnarstíl, hérna vanti lýðræðisleg vinnubrögð og samráð úti á vettvangi. Það er eins og hv. þm. hafi ekki fylgst með þessari umræðu eða meðferð á þessu máli. Hvernig stóð á að tekin var ákvörðun um að skoða þessa leið tvö um fækkun á sveitarfélögum niður í 25? Var það félmrh. sem ákvað það? Nei, aldeilis ekki. Ég hygg að fá mál hafi fengið eins lýðræðislega umfjöllun og meðferð og þetta mál. Það hefur verið í undirbúningi í þrjú ár í fullu samstarfi við alla stjórnmálaflokka á þingi, fullu samstarfi við Samband ísl. sveitarfélaga og það hafa verið gefnar út þrjár skýrslur um þetta mál. Það hefur verið fjalla um það á mörgum fundum. Tvisvar sinnum hefur verið farið í kringum landið til að fjalla um þetta mál. Það hefur verið fjallað um þetta mál á fjármálaráðstefnu Sambands ísl. sveitarfélaga og á hverju var svo niðurstaðan byggð sem hefur verið til skoðunar í rúmlega eitt ár? Ekki á ákvörðun minni. Nei. Á ákvörðun og tillögu Sambands ísl. sveitarfélaga. Þar voru lagðar til þrjár leiðir sem kæmu til skoðunar og hvað lagði Samband ísl. sveitarfélaga sjálft til? Fulltrúaráðið lýsir yfir stuðningi við hugmyndir um stækkun og eflingu sveitarfélaga með sameiningu þeirra sem taki eins og kostur er mið af leið tvö í áfangaskýrslunni sem var sameining niður í 25 sveitarfélög. Það var fulltrúaráðið sjálft sem tók þessa ákvörðun að það ætti að skoða þessa leið tvö, ekki félmrh. Þess vegna vísa ég þessu auðvitað á bug sem hér hefur komið fram af hálfu síðasta ræðumanns.
    Varðandi höfuðborgarsvæðið eru líka tillögur í þessari skýrslu um það hvaða leiðir menn vilja sjá til þess að ganga til sameiningar varðandi sum sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Ég harma það að þingmaðurinn skuli láta út úr sér það sem hann sagði um formann nefndarinnar sem hefur að allra manna mati sem hafa setið í þessari nefnd staðið sig mjög vel og haft mjög vönduð vinnubrögð. Hann notar þau orð að hér sé um að ræða hrokafulla framkomu af hálfu formannsins, auðvitað vísa ég því á bug. Og hann fór ekki um landið til að tilkynna sveitarfélögunum hvernig þessu skyldi háttað heldur fyrst og fremst að ræða þá kosti sem voru uppi í stöðunni. Ég ítreka að það var fulltrúaráð Sambands ísl. sveitarfélaga sem mælti með þessari leið tvö, en það var ekki skipun ofan að frá ráðherra.