Sveitarstjórnarlög

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 13:30:30 (5612)

     Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka þeim þingmönnum sem tekið hafa þátt í þessari umræðu fyrir afar fróðlegar og gagnlegar umræður og oft og tíðum skemmtilegar og ég vil einnig þakka hæstv. félmrh. fyrir það að vera viðstödd umræðuna en það er ástæða til þar sem sá siður virðist vera hjá hæstv. núv. ríkisstjórn að ráðherrar eru almennt ekki að ómaka sig á því að vera viðstaddir umræðu þingmannamála sem lúta að þeim ráðuneytum sem þeir hafa umsjón með.
    Hér hafa allnokkur atriði komið fram sem vert er að gefa gaum að, en ég vil fyrst víkja að efnisinntaki frv. um breytingu á því hvernig úrslit ráðast í atkvæðagreiðslu innan sveitarfélags um sameiningu þess við annað eða önnur sveitarfélög.
    Það kom skýrlega fram hjá hv. 5. þm. Austurl., Gunnlaugi Stefánssyni, að núverandi fyrirkomulag sem er búið að vera í lögum síðan 1970 eða í rúm 22 ár, hartnær 23, er mönnum svo framandi þar sem til þess þarf að grípa eins og nýverið varð á Austfjörðum að menn komu nánast af fjöllum þegar úrslitin voru tilkynnt því að þeir höfðu auðvitað gert ráð fyrir því að úrslit væru þannig að meiri hlutinn réði, meiri hluti þeirra sem tækju þátt í kosningunni en komust að raun um að svo var ekki, sér til mikillar furðu. Ég tel það mjög sterka röksemd fyrir því að þurfi að breyta lögunum og þakka hv. 5. þm. Austurl. fyrir hans innlegg til rökstuðnings þessu frv., auðvitað verði löggjöfin að vera þannig að hún sé í samræmi við réttlætiskennd íbúanna.
    Ég er þeirrar skoðunar að verði þetta frv., sem nýtur víðtæks stuðnings innan sveitarstjórnarstigsins eins og ég rakti í framsöguræðu minni, að lögum þá muni það gera okkur kleift að taka upp þessa umræðu um sameiningu sveitarfélaga á heilbrigðum og vitrænum grundvelli þar sem menn geta rætt málið án þess að þeir eigi yfir höfði sér hnútasvipu ráðherravaldsins sem þeim er hótað að skelli á þeim ef þeir verði ekki þægir og láti að stjórn eins og ætlast er til. Það er nefnilega alveg rétt sem fram kom hjá hv. 8. þm. Reykn. að í þessu máli hefur ráðherrann gengið fram með miklu offorsi, með mikilli miðstýringaráráttu svo að með ólíkindum er. Í raun og veru hefur málið verið þannig vaxið fyrir mig sem þekki þetta nú nokkuð vel, hef starfað að því, að maður hefur séð það glögglega að það var ákveðin fyrir fram niðurstaða og síðan var verið að skrifa skýrslu utan um fyrir fram gefna niðurstöðu til þess að reyna að finna réttlætingu og rökstuðning fyrir því. Það var verið og er verið að skrifa aftur á bak það sem menn ætla að gera. Ég vara menn við svona vinnubrögðum því að það er ekki hlutverk framkvæmdarvaldsins og einstakra ráðherra að tala við önnur stjórnsýslustig og íbúa landsins í boðhætti og segja: Þið skuluð. Menn eiga að fá að ráða sínu umhverfi í þessum efnum og ég hef aldrei léð máls á því að samþykkja nokkra þá ályktun eða löggjöf sem gerir hið gagnstæða. Ég tel að með því að samþykkja þetta frv. værum við að taka nokkuð heilladrjúgt spor til þess að ,,ballansera`` umræðuna þannig að hún verði yfirveguð og markviss og rökstudd og víkja úr þessu fari sem hún hefur verið í undanfarin ár þar sem hefur einkennt hana óðagot og fyrirmæli.
    Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra vék ekkert að því sem hann hafði boðað í fyrra, frv. sem hann ætlaði að leggja fram í vetur um lögþvingun sveitarfélaga. Hvar er það frv., virðulegi forseti? Frv. sem átti að vera þannig útbúið að það átti að kjósa um sameiningu sveitarfélaga í stórum heildum. Síðan átti að telja upp úr þeim heildum í einum potti. Þannig að sú staða gat komið upp að í sveitarfélagi greiddu allir atkvæðisbærir íbúar gegn tillögu en yrðu þvingaðir samt til að leggja niður sitt sveitarfélag.
    Hvar er þetta frv.? Auðvitað vitum við sem höfum fylgst með umræðunni hvar það er. Það er dautt. Hugmyndin um hraðaksturinn í þessu máli er búin að vera. Það átti að leggja þetta fram öðru hvoru megin við áramót og ljúka þessu fyrir vorið og vera búið að kjósa landið niður í 27 sveitarfélög fyrir næstu

sveitarstjórnarkosningar. Þessi áform eru sem betur fer búin að vera vegna þess að þau fengu ekki hljómgrunn hjá fólkinu.
    Það er nefnilega aldrei farsælt, virðulegi forseti, þegar handhafar framkvæmdarvaldsins líta þannig á sig að þeir séu Stórisannleikurinn --- með stóru s-i. Miðstýring og forræðishyggja eiga ekki vel við Íslendinga og í þessu máli hefur verið nóg af hvoru tveggja. Yfrið nóg svo út úr hefur flætt á alla vegu.
    Ég hef velt því fyrir mér hvaða tilgangi það markmið þjónaði að sameina sveitarfélög úr 223 niður í 27. Hver var leikurinn á bak við þetta prógram? Mér gekk dálítið illa að finna botn í það af því að menn sýndu ekki spilin sem þeir voru með á hendi. Það er ekki fyrr en með annarri skýrslu, sem er nýlega komin út og var send út til umsagnar frá Byggðastofnun um breyttar áherslur í byggðamálum, sem manni verður ljóst hvert ríkisstjórnin er að stefna. Þar birtist stefna ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, Alþfl. og Sjálfstfl. um það hvernig landið eigi að vera byggt á næstunni. Þar er enginn skortur á forræðishyggju og miðstýringu. Þar skrifa menn bara upp hvar menn eigi að búa. Menn ætla að ákveða það frá kontór í Reykjavík hverjir eiga að lifa og hverjir eiga að deyja. Fólkið sjálft á ekki að ráða því eða kostir landsins sem það býr í eiga ekki að ráða því heldur einhver fimm ára áætlun, ráðstjórnaráætlun Sjálfstfl. og Alþfl., sem á að breyta landslaginu á næstu árum.
    Þegar maður flettir upp í þessari skýrslu þá blasir við á bls. 8 eftirfarandi málsgrein sem mig langar til að lesa upp, með leyfi forseta:
    ,,Við gerð þessarar áætlunar hefur í ýmsum atriðum verið stuðst við hugmyndir sem fram koma í skýrslu sveitarfélaganefndar til félmrn. frá október 1992 en hún ber heitið ,,Aukið hlutverk sveitarfélaganna``. M.a. er svæðaskipting`` --- gætið að því --- ,,í byggðaáætluninni sú sama og notuð er í skýrslu sveitarfélaganefndar.``
    Hér eru menn að teikna upp landakort í byggðaáætlun sem er með sömu landamerkjum og er gert í skýrslu sveitarfélaganefndar. Við skulum þá líta á landakortið, á vaxtarsvæðin. Það er á bls. 61 í þessari skýrslu. Þar eru dregnir upp dökkir dílar og sagt: Hér eru vaxtarsvæði. Hér lætur ríkið sína peninga og byggir upp þjónustu. En á hvítu svæðunum þar fyrir utan skulu menn deyja drottni sínum. Menn verða bara að bjarga sér sjálfir og ef þeir eru svo heimskir að vilja búa þar þá það. Þeir fá enga aðstoð frá ríkinu.
    Þetta er stefna hæstv. félmrh. í byggðamálum sem hún er að undirbyggja með skýrslu sveitarfélaganefndar og er sérstaklega tekið fram á bls. 8 í skýrslu Byggðastofnunar um breyttar áherslur í byggðamálum sem er unnin samkvæmt fyrirmælum frá hæstv. forsrh. Davíð Oddssyni með stuðningi hæstv. félmrh. Jóhönnu Sigurðardóttur.
    Hvaða svæði eru það sem ekki eru vaxtarsvæði og á að leggja hér af? Það er fróðlegt fyrir hv. 4. þm. Vestf. sem ver hæstv. félmrh. og forræðishyggju hennar með kjafti og klóm að líta á Vestfjarðakjálkann. Þar er bara öll Strandasýslan eins og hún leggur sig --- bara út af borðinu með hana. Hún er ekkert vaxtarsvæði. Maður spyr sig: Til hvers eru menn að leggja til að sameina öll þessi sveitarfélög í Strandasýslu í eitt? Er það bara til þess að það geti lifað pínulítið lengur? Hvað með Norður-Þingeyjarsýslu? Til hvers er verið að leggja til hér að sameina Raufarhafnarhrepp og Öxarfjarðarhrepp í eitt sveitarfélag og gefa síðan út annað kort þar sem er strikað yfir þetta svæði? Enga opinbera aðstoð fá þeir sem þar búa og eru svo vitlausir að vilja búa þarna nærri fiskimiðunum. Það passar ekki inn í byggðastefnu ríkisstjórnarinnar.
    Það er ekki að ástæðulausu, virðulegi forseti, að það sem mest hefur vakið athygli mína í þessari umræðu er að enginn sjálfstæðismaður hefur tekið þátt í henni. Það er vegna þess að þeir vita upp á sig skömmina. Þeir vita hver stefna flokksins í byggðamálum er. Hún er sú að aftengja á vissum stöðum. Það á ekki að vera samfelld byggð. Það eiga bara að vera blettir og ný jaðarsvæði í kringum þá. ( Gripið fram í: Eða skallar.) Skallar, sköllótt land. Það er hin nýja byggðastefna. Það er væntanlega af því að það er hagkvæmt. Menn hafa fundið það út á einhverju reiknilíkani að það væri óhagkvæmt að menn væru að búa í Strandasýslu. Þvílíkar skilgreiningar að segja að staður eins og Hólmavík sé ekki vaxtarsvæði. Sá staður sem á síðustu tveimur áratugum hefur vaxið jafnt og þétt og er alltaf að stækka. En staðir eins og Ísafjörður og Bolungarvík hafa ekki tommað nokkurn hlut. Þeir eru vaxtarsvæðin. Hvar er veruleikinn í þessari stefnu, virðulegi forseti?
    Ég tel nauðsynlegt að minna á þessa skýrslu vegna þess að hún sjálf tengir sig við áformin sem hæstv. ríkisstjórn hefur uppi um sameiningu sveitarfélaga. Hún skýrir betur hver tilgangurinn er með þessu. Ég skora á alla hv. þm. að verða sér úti um eintak af þessari skýrslu og lesa hana spjaldanna á milli þannig að mönnum sé ljóst ef þeir vita það ekki nú þegar hvaða stefnu þeir eru að styðja í þessu máli.
    Til að kóróna síðan ósvífnina í þessu eru ekki aðeins sendir menn til þess að messa yfir landsbyggðarfólkinu, sem býr á svo óhagkvæmum stöðum í óhagkvæmum einingum að það þarf að breyta því, fyrir milljónir króna á ári --- og á kostnað hvers? Það er Jöfnunarsjóður sveitarfélaga sem borgar þessar 5 millj. kr. á ári sem það hefur kostað að skipta við tiltekið verktakafyrirtæki Alþfl. Hverjir eru það sem í raun greiða það sem jöfnunarsjóðurinn borgar? Það eru þessi fámennu sveitarfélög úti á landi sem eiga að fá þessa peninga. Þau eru látin borga áróðurinn gegn sjálfum sér. Þetta kalla ég hámark ósvífninnar, virðuleg forseti. Lengra verður ekki gengið í forræðishyggjunni, miðstýringunni og ósvífninni.
    Og meðan þessi stefna er uppi sem Alþfl. stendur fyrir enn sem komið er þangað til Sjálfstfl. kemur fram úr skúmaskotunum og sýnir byggðastefnu sína þá mun ekki tomma neitt í þessu máli því fólkið

gerir uppreisn gegn svona áformum. Fólk er ekki tilbúið til þess að taka við mútufé til þess að flytja sig hreppaflutningum á milli svæða, hvorki nú né í fyrra, hvorki nú né í framtíðinni. Menn eiga að slá þessi áform niður á vitrænt plan þannig að menn séu ekki að eyða miklu fé og kröftum algjörlega til einskis.
    Við sjáum það reyndar að landsbyggðinni hefur kannski boðið í grun hvert stefndi í þessum málum. Við sjáum það í skoðanakönnunum á fylgi Alþfl. á landsbyggðinni sem mælist 4,6%. Það er ekki mikla hrifningu að sjá í þessum tölum á sameiningu sveitarfélaga né stuðningur við að það sé eitthvert grundvallaratriði í sjálfu sér og forsenda fyrir því að menn öðlist nýtt líf.
    Síðan koma menn hér upp alveg uppfullir og heilagir og skilja ekkert í því að menn séu að bregða fæti fyrir hagræðingu sameiningar. Þvílíkt og annað eins. Ég veit ekki í hvaða veruleika menn eru staddir sem tala svona. Ég held að þeir sem eru enn þá á þessari skoðun og hafa ekki víðari sjóndeildarhring en þetta ættu að líta í kringum sig. Hvað er húsfreyjan í Suðursveit betur sett þegar búið verður að sameina öll sveitarfélögin í Austur-Skaftafellssýslu? Er hún betur sett af því hún á kost á leikskólaplássi fyrir barnið sitt á Höfn í Hornafirði sem er tveggja tíma akstur í burtu? Hvað með ungu börnin í Ögurhreppi? Ætli það breyti miklu fyrir þau þó Ögurhreppur verði sameinaður Ísafirði varðandi leikskólapláss? Ég held að menn verði aðeins að gæta að því hvert menn eru að fara, virðulegi forseti. Menn mega ekki tala eins og fólk sé búfénaður sem hægt er að flytja fram og til baka.
    En það er alveg undarlegt með þennan Alþfl. --- Jafnaðarmannaflokk Íslands, litla flokkinn með langa nafnið, hvað hann er illa haldinn af þessari forræðishyggju og alveg með ólíkindum ef þeir þingmenn fyrirfinnast í Sjálfstfl. sem ætla að taka undir samþykktir Ceausescu eins og menn hafa skrifað gegn honum í gegnum tíðina. (Gripið fram í.) Það læt ég nú ósagt. Hér var sagt að það hafi verið ómaklega en ég treysti mér ekki til þess að bera það til baka.
    Það má fleira um þetta segja en ég hygg að ég láti senn máli mínu lokið. Ég legg áherslu á tvennt sem menn ættu að hafa í huga í þessum málum. Það fyrra er að menn eiga að hafa lýðræðið í heiðri. Menn eiga að hafa í heiðri að virða vilja fólks í þessum efnum. Í öðru lagi eiga menn að leggja til hliðar að nýta stöðu sína til að viðhalda og koma upp kommissarakerfi. Það er alveg með ólíkindum að horfa upp á það hvað Alþfl. leyfir sér að setja marga menn á ríkisjötuna innan lands og utan.
    Það mætti ætla að nú færu menn að klára þetta nefndarstarf í sveitarfélaganefnd því formaðurinn er orðinn aðstoðarmaður ráðherra. Ég býst því ekki við að hann þurfi á tveimur jötum að halda í senn og ekki tíma til að sinna þeim báðum.
    En ég vil ljúka þessu, virðulegi forseti, með því að lesa upp kafla úr ræðu sem flutt var 1969 af góðum og gegnum Jafnaðarmanni --- með stóru j-i --- sem hét Björn Jónsson og margir bera virðingu fyrir, bæði í Alþb. og ekki síður í Alþfl. Hvað sagði hann um þessi mál, því menn hafa oft tekið snerru áður um þetta? Hann sagði, með leyfi, virðulegur forseti:
    ,,Það er ýmislegt fleira sem manni þykir alleinkennilegt í þessu frv. eins og það, sem hér hefur verið komið inn á, að þessi sérstaki erindreki geti ákveðið á eigin spýtur að láta fara fram atkvæðagreiðslu í sveitarfélagi um sameiningu þó tillaga um sameiningu hafi engan stuðning hlotið frá neinum hlutaðeigandi sveitarstjórnarmanna. Þá er honum gefið vald til þess að ákveða einn stað og stund til slíkrar atkvæðagreiðslu.
    Mér sýnist að hér sé raunverulega um það að ræða að lögfesta eins konar trúboðsstarfsemi til framdráttar þeirri skoðun höfundar frv. að sem víðtækust sameining sveitarfélaga horfi til hagsbóta og umbóta, væntanlega fyrir íbúa sveitarfélaganna alfarið.
    Í greinargerð sem fylgir með frv. er hins vegar engan rökstuðning að finna fyrir þessari skoðun þó ég telji nú að vafalaust megi finna fullyrðingu í þá átt einhvern stað í einhverjum tilvikum. En það hefur a.m.k. ekki verið séð nein ástæða til þess af hálfu nefndarinnar`` --- þ.e. sveitarfélaganefndar sem starfaði 1967 --- ,,að kynna a.m.k. í greinargerð þau rök sem hún þarf þó að hafa í fórum sínum varðandi þetta atriði.
    Það er líka athyglisvert að grundvallarhugsunin í þessu frv. á að vera sú að efla sveitarfélög. En hins vegar hafa þeir sem um það hafa fjallað ekki komið auga á neina aðra leið en að stækka umdæmin landfræðilega og íbúafjölda. Það er sem sagt mjög trúarkennt sýnist mér allt sem að þessu lýtur og lítið reynt að finna því stað í raunveruleikanum. En stefnan sem kemur í ljós af greinargerðinni er þó sú að það eigi að gerbreyta sveitarstjórnarkerfinu í landinu og í svo ríkum mæli að sveitarfélögunum verði fækkað úr nokkuð á þriðja hundrað, sem þau nú eru, og aðeins í rúmlega 60. Þetta telja frumvarpshöfundarnir, nefndin sem að þessu vann, ég vil segja án rökstuðnings, að muni reynast til mikilla bóta en nefndin telur á hinn bóginn ekki rétt að lögfesta þessa nýju og góðu skipan sem hún stefnir að heldur á að láta þessa trúboðsstarfsemi, sem ég nefni svo, og þessa sérstöku erindreka nægja a.m.k. í bili.``
    Enn fremur segir þessi ágæti hv. fyrrv. þm. Björn Jónsson, með leyfi forseta:
    ,,En ég tel alveg jafnaugljóst að mikil eða jafnvel stórfelld landfræðileg stækkun sveitarfélaga geti engu að síður valdið miklum erfiðleikum og sérstaklega að því er varðar samskipti íbúa sveitarfélaga við sveitarstjórnir og stofnanir þeirra. Er það að mínu viti bæði gömul og ný saga að dreifbýlisfólki reynist oft löng leiðin til keisarans og það er alveg ástæðulaust að bæta þar á. Það eru tálmanir á þeirri leið sem margir verða að brjóta og ég álít líka að það sé mála sannast að stærð og íbúafjöldi sveitarfélaganna hafi í raun og veru ekki reynst neinn mælikvarði á það hvernig störf sveitarstjórnarmanna fara þeim úr hendi.``