Sveitarstjórnarlög

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 13:56:41 (5614)


     Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er rétt að fulltrúaráð Sambands ísl. sveitarfélaga ályktaði um málið á þingi sínu haustið 1991. Á nýafstöðnu þingi þessa sama fulltrúaráðs var sú samþykkt í raun og veru dregin til baka að verulegu leyti. Það var vegna þess að fulltrúaráðið sem er skipað 45 fulltrúum tæplega 200 sveitarfélaga hafði áttað sig á að það var ekki í takt við meirihlutavilja sveitarstjórnarmanna landsins og var að finna sér nýjan takt og gerði það með því að draga til baka stuðning sinn við öll áform um lögþvingun og lagði m.a. til að sú breyting yrði gerð á lögunum sem ég var hér að mæla fyrir því svo hittist á að ég hafði lagt þetta frv. fram um miðjan desember á síðasta ári.
    En hv. þm. Hrafnkell A. Jónsson verður að átta sig á því hvert stefnir í byggðamálum vegna þess að þessi nýja skýrsla Byggðastofnunar um breyttar áherslur í byggðamálum er að nokkru leyti grundvölluð á skýrslu sveitarfélaganefndar. Hér er um að ræða annað birtingarform þeirrar byggðastefnu sem núv. ríkisstjórn stendur að. Það er ljóst þegar maður les þessa skýrslu hvert menn eru að stefna. Menn eru að stefna að því að leggja áherslur á ákveðin svæði en láta önnur lönd og leið.
    Það væri fróðlegt fyrir hv. þm. sem á umræður hér hlýða að fá að heyra hver afstaða landsbyggðarþingmanna Sjálfstfl. er til þessarar stefnu hæstv. ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Þessi stefna er mótuð og skrifuð upp samkvæmt fyrirmælum hæstv. forsrh.