Sveitarstjórnarlög

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 14:06:40 (5621)


     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þessi umræða hefur því miður að mestu leyti farið fram hjá mér. Hins vegar vil ég ekki fyrir nokkurn mun sitja undir því að hv. 5. þm. Vestf. láti mig og aðra stjórnarliða bera ábyrgð á öllum tilskrifum einstakra embættismanna og einstakra stofnana jafnvel þó að við séum í stjórnarmeirihluta. Mig hefði satt að segja aldrei órað fyrir því þegar ég greiddi því atkvæði að ganga til stjórnarsamstarfs með Alþfl., og hef stutt það stjórnarsamstarf ævinlega síðan, að það þýddi að ég samþykkti og væri aðili að og það túlkaði sérstaklega stefnu mína öll skrif og allar skýrslur sem tilteknar stofnanir létu frá sér fara.
    Ég vil vekja athygli á því að sú skýrsla Byggðastofnunar sem hv. 5. þm. Vestf. vitnar til er fylgiskjal með ályktun sem samþykkt var, að ég hygg samhljóða, í stjórn Byggðastofnunar. Sú ályktun er í sjálfu sér sjálfstætt plagg og það fylgiskjal og sú greinargerð sem þar fylgir er líka í sjálfu sér sjálfstætt plagg og hefur ekki fengið neinn þann pólitíska status, hvorki í þingflokki Sjálfstfl. eða Alþfl., sem gefur hv. 5. þm. Vestf. hið minnsta tilefni til að ætla að það þurfi endilega að túlka sjónarmið ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin hefur haft þá skoðun að það eigi að efla byggðir landsins með því að treysta samgöngur á milli þeirra og þess vegna er til komið hið mikla samgönguátak sem verið er að gera núna í vegamálum með því að hrinda í framkvæmd þeirri mestu uppbyggingu í vegamálum sem við höfum séð og verður á þessu

ári og hefur það sérstaklega að markmiði að treysta samstarf einstakra byggða til þess að gera þær færari um það að verða þau vaxtarsvæði sem þau þurfa að vera.
    Ég veit að hv. 5. þm. Vestf. getur vel staðfest það að ég hef ævinlega mjög goldið varhug við öllu tali um einhverja forræðishyggju í þeim efnum og haft stór orð uppi um þær hugmyndir sem fela í sér að það sé á hlutverki stjórnvalda, hvort sem það eru embættismenn eða stjórnmálamenn, að velja fólki búsetu með einum eða öðrum hætti.