Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 14:28:23 (5627)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna. En slík áætlun náði ekki fram að ganga á síðasta þingi og vona ég að bragarbót verði gerð á því.
    Í fljótu bragði er ekki annað að sjá en að mörg ágæt markmið séu sett í áætlununni en það er þeim mun dapurlegra að sjá að margt af því sem þarna er lýst sem markmiðum er í hróplegu ósamræmi við aðgerðir ríkisstjórnarinnar og hugmyndir um aðgerðir. Því hlýtur maður alltaf að spyrja hvert sé vægi slíkrar áætlunar. Þetta segi ég þrátt fyrir það að mér finnist sjálfsagt, eðlilegt og nauðsynlegt að gera slíka áætlun. Það verður að gera meira en áætlanir. Það verður líka að sjá til þess að þeim sé framfylgt.
    Einnig langar mig að spyrja þar sem það er ekki alveg fullljóst af texta þáltill. sjálfrar hvort einungis umhvrn. hafi gert jafnréttisáætlun í sínu ráðuneyti eða hvort fleiri ráðuneyti hafi gert það. En það má skilja á textanum að svo sé.
    Ég kem þá að einstökum atriðum. Í fyrsta lagi tek ég undir að mjög mikilvægt er að ríkisstofnanir sinni skyldu sinni og auglýsi allar lausar stöður til umsóknar. Þar með er auðvitað ekki björninn unninn en það er mjög hart að vita það að stöðum skuli enn vera ráðstafað án þess að öllum gefist færi á að sækja um þær og því er þetta ákvæði að mínu mati mjög mikilvægt.
    Það næsta sem ég vil staldra við er það markmið að hlutur kvenna í nefndum á vegum ríkisins verði 30% í lok gildistíma áætlunarinnar en þetta er leið sem margar stofnanir og þjóðir
hafa sett sér, þ.e. að setja sér ákveðin markmið og reyna að fara eftir þeim og stjórnvöld hér á landi ætla greinilega að taka upp. Ég vil í því sambandi vísa til þess að Sameinuðu þjóðirnar hafa m.a. sett sér slík markmið.
    Varðandi sveigjanlegan vinnutíma hlýt ég að fagna því að það markmið er hér vegna þess að ég flutti á þinginu þáltill. um sveigjanlegan vinnutíma og ég tek undir það mat að betur þurfi að samræma fjölskylduábyrgð og þátttöku í atvinnulífi og að sveigjanlegur vinnutími sé leið sem sé möguleg til þess að gefa starfsmönnum kost á því að gera slíkt. Ég tek fram að ekki er nóg að einungis konum verði gert þetta kleift heldur þarf líka að ítreka það að fjölskylduábyrgð er ábyrgð beggja foreldra en ekki einungis mæðranna.
    Ég staldra aðeins við bifreiðastyrki þar sem ég held að það sé sérstaklega þörf á að taka þar á. Ég minni á að í lífskjarakönnun sem gerð var fyrir örfáum árum kom fram að 11,8% karla og 2,9% kvenna nutu fyrirtækisbíls eða embættisbíls sem hluta af starfskjörum sínum. Hér skakkar verulegu. Ef áfram er haldið með bílafríðindin þá njóta 18,3% karlar og 10,7% kvenna bílastyrks sem hluta af launakjörum sínum. Þetta er einungis lítið dæmi um það hversu mikill mismunur er þarna og full þörf á því að taka á þessu.

    Varðandi breytingar á lögum um meðferð opinberra mála vil ég að það komi sérstaklega fram að enn er misbrestur á því að ábyrgð sé tekin, ríkið taki ábyrgð á greiðslum miskabóta í nauðgunarmálum og nú þegar liggur fyrir þinginu þáltill. um að stofnuð verði nefnd til að athuga þessi mál. Sjálfsagt þarf að ganga lengra því máli ef vel á að vera og taka af skarið og sjá til þess að þetta verði gert.
    Varðandi samstarf jafnréttisráðgjafa við atvinnuþróunarfélög og atvinnuráðgjafa er það mál í rauninni tvíþætt. Annars vegar það að atvinnuskapandi starfsemi miðist við þarfir kvenna ekki síður en karla og hins vegar að jafnréttis sé gætt að öðru leyti. Eins og við þekkjum mjög vel úr umræðunni að undanförnu þá hafa mýmargar hugmyndir komið upp um atvinnusköpun fyrir karla en það lætur svolítið á sér standa að hugsa til kvennanna þó að þær séu í meiri hluta bæði á landinu og sérstaklega á einstökum landsvæðum í hópi atvinnulausra.
    Varðandi lög um fæðingarorlof vil ég drepa á það að heilbr.- og trmrn. talar um samræmingu á milli opinberra starfsmanna og starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Í ljósi reynslunnar af störfum ríkisstjórnarinnar, sem nú er við völd, er full ástæða til að óttast að sú samræming verði til þess að skerða rétt fólks en ekki auka hann og þá væri nú verr af stað farið en heima setið. Ég minni á umræður sem urðu í tengslum við efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar. Ég sé líka ástæðu til þess að gera sérstaka athugasemd við samfelldan skóladag, en þetta gullna markmið fá finna hér neðst á bls. 6 í þessu ágæta skjali og þar er sagt skýrt og skorinort: Stefnt verður að því að koma á samfelldum skóladegi í grunnskólum eins fljótt og unnt er samkvæmt lögum um grunnskóla frá 1991, en við vitum hvernig það mál hefur gengið fyrir. Í tvígang hefur framkvæmd þessara laga verið frestað eða þessum ákvæðu laganna og hér má segja að framkvæmdin sé í átakanlegri mótsögn við markmiðin sem sett eru. Það er sem sagt frekar verið að hamla gegn þessari þróun og það er á fullri ábyrgð ríkisstjórnar og þar með talið félmrh. Ég krefst því skýrra svara um það hvort þetta séu meira en orðin tóm.
    Ég sé það að tíminn líður hraðar en heppilegt væri. Ég vil þó að lokum staldra við þróunaraðstoð en þar vil ég sérstaklega geta þess að það hefur verið sannað svo að ekki verður um villst að þróunaraðstoð sem beint er til kvenna hefur nýst mjög vel. Alþjóðabankinn hefur sérstaklega talið ástæðu til þess að geta þessa og því vil ég hvetja til þess að það verði lagður þrýstingur á að íslenskri þróunaraðstoð verði beint um hendur kvenna í þróunarlöndum.