Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 15:46:48 (5641)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er rétt sem fram hefur komið hér í umræðunni að við höfum heldur horft á bakslag á undanförnum árum og ekki síst í kjölfar þeirra aðgerða ríkisstjórnarinnar sem við nú búum við. En spurningin sem við stöndum frammi fyrir er: Hvernig getum við snúið vörn í sókn og hvað þarf að gera?
    Ég vil ítreka það sem ég sagði í fyrri ræðu minni að ég tel mjög mikilvægt að við horfum á hugarfarið sem ríkir í okkar þjóðfélagi, bæði í stjórnkerfinu og annars staðar. Það er alveg ljóst að það stendur konum fyrir þrifum. Konur eru að glíma við gamlar hefðir, venjur og fordóma og ýmsar hugmyndir um konur sem þarf að breyta. Þegar ég las þessa skýrslu fór ég að velta fyrir mér spurningunni: Hvað er mikilvægast að gera í þeirri stöðu sem við erum í nú? Að mínum dómi er það langsamlega mikilvægast að konur búi við efnahagslegt sjálfstæði. Efnahagslegt sjálfstæði kvenna er afar brýnt og í raun og veru mjög mikilvægt fyrir sjálfsvirðingu hvers einstaklings. En eins og málum háttar er heldur afturför á því sviði.

    Í öðru lagi vil ég nefna réttinn til vinnunnar. Við stöndum einfaldlega frammi fyrir því að spyrja hvort fólk hafi lengur rétt til vinnu. Það er verið að taka frá fólki þann mikilvæga rétt að geta unnið fyrir sér og verið að beina æ fleirum inn til félagsmálastofnana og á atvinnuleysisbætur.
    Þá er aðgangur að menntun. Það er líka verið að skerða hann eins og hér hefur komið fram í umræðunni. Þetta leiðir mig að þeim punkti sem er svo gegnumgangandi í þessari skýrslu og manni hefur fundist svo einkennandi við alla umræðu og allar aðgerðir þar sem jafnrétti kvenna kemur við sögu og það eru alls konar kannanir. Mér finnst að í rauninni sé stöðugt verið að gera kannanir en síðan gerist ekkert meir. Við þurfum að sjálfsögðu upplýsingar en við þurfum líka að fylgja þeim eftir. Ég beini þeirri tillögu til hæstv. félmrh., að hún láti gera verulega stóra og ítarlega könnun um hugarheim íslenskra kvenna. Um hugarheim og stöðu íslenskra kvenna. Vegna þess að ég held að okkur vanti mjög miklar upplýsingar um hvað konur vilja í raun og veru. Hvaða hugmyndir hafa konur um sjálfar sig og stöðu sína og hvað vilja þær? Vegna þess að okkar áætlanir og ákvarðanir þurfa auðvitað að vera í einhverju samræmi við vilja kvenna í landinu.
    Í því sambandi vil ég líka nefna að ég held að það sé mjög brýnt að efla kvennarannsóknir. Við hér á Íslandi erum því miður býsna aftarlega á merinni í kvennarannsóknum sem m.a. hafa það markmið að gefa okkur upplýsingar um hugarheim kvenna. Í rauninni gildir alveg það sama um karla. Það væri mjög fróðlegt að fá ítarlega könnun á hugarheimi íslenskra karla. Hvernig þeir líta á sjálfa sig, hvað þeir vilja og ætla sér. (Gripið fram í.) Ég held að það væri mjög fróðlegt. (Gripið fram í.) Það kann vel að vera að það þyrfti ekki að rannsaka mjög marga en ég ætla ekki að gera því skóna. Við skulum ekki vera með neina fordóma í garð íslenskra karla.
    Það er ýmislegt í þessum tillögum sem ég vildi nefna. Ég beini þeirri hugmynd til hæstv. félmrh. og nefndarinnar sem á eftir að kanna þetta mál að fjmrn. geti gert ýmislegt betur varðandi sína upplýsingaskyldu til almennings. Mér dettur í hug að ekki veitti af að halda skipuleg námskeið um skattamál og fjármál fyrir konur vegna þess að við vitum að mörgum konum finnst þar vera mikill frumskógur á ferðinni. Eins vil ég minna á að Kvennalistinn flutti fyrir nokkrum árum tillögu um að við Byggðastofnun yrði komið á fót sérstakri kvennadeild. Hér er nokkuð komið inn á byggðaþróun og flutning kvenna frá landsbyggðinni til Reykjavíkur sem hér er talað um að kanna. Ég held að það þurfi ekki að kanna það mikið. Við vitum alveg hvað þar býr að baki, einhæf vinna og fáir menntunarkostir og skortur á félagslegri þjónustu. Það eru kannski þeir meginþættir sem þar skipta sköpum. Reyndar hefur það alltaf verið svo að konur hafa verið í meiri hluta íbúa í Reykjavík frá því að Reykjavík varð kaupstaður og straumur kvenna hefur ávallt verið meiri til Reykjavíkur en karla. Enda eru konur fleiri hér í borginni en karlar og átakanlegur skortur á karlmönnum á vissum aldri.
    Einu vildi ég líka vekja athygli á og það varðar heilbr.- og trmrn. Ég varpa þeirri hugmynd hér fram að ég held að full ástæða sé til að kanna sérstaklega stöðu gamalla kvenna og fatlaðra kvenna í landinu. Þar er reyndar norrænt verkefni í gangi sem verið er að kanna stöðu gamalla kvenna og margt mjög athyglisvert sem þar hefur komið fram. Ég held að við þurfum einmitt að huga að því að konur eru ekki bara konur á barneignaaldri eða konur úti á vinnumarkaði. Það eru ýmsir aðrir hópar kvenna sem þarf að huga að. Ég vil beina því til nefndarinnar að hún hugi að þessu máli.
    Það væri hægt að tala lengi um stöðu kvenna úti á landsbyggðinni. Það er alveg sérstakt mál hvernig að þeim er búið og hversu rýrir möguleikar þeirra til atvinnu eru. Þar þarf virkilega að taka á. Að maður tali nú ekki um landbúnaðarbatteríið allt saman þar sem konur eru sjaldséðir gestir eins og sjá má á búnaðarþingi þessa dagana.
    Að lokum, virðulegur forseti, ætla ég aðeins að nefna menntamálin. Ég held að við þurfum að huga þar miklu meira að inntaki námsins og námsefnisins. Ég get rifjað það upp hér að mér fannst það mjög athyglisvert sem ég sá í skýrslu um stöðu barna og unglinga í okkar samfélagi þar sem vitnað var í ákveðinn sálfræðing sem hélt því fram að íslenski grunnskólinn væri stelpuskóli. Hann væri fyrst og fremst stelpuskóli. Það kom mér spánskt fyrir sjónir en vekur auðvitað upp ýmsar spurningar um stefnu okkar í menntamálum.
    Ég ætlaði allra síðast að vekja athygli á því varðandi umhverfismálin að á umhverfisráðstefnunni í Ríó --- (Forseti hringir.) --- ég er alveg að ljúka máli mínu, herra forseti --- var sérstaklega vakin athygli á hlutverki kvenna í umhverfisvernd og því að það eru oftast konur sem stýra neyslu heimilanna og geta því haft mjög mikið að segja varðandi það að kaupa umhverfisvænar vörur og halda úrgangi og sorpi í algeru lágmarki. Ég held einmitt að þetta sé atriði sem við þurfum að huga að. Við eigum ekki að einblína á hina formlegu hlið og hvar hægt er að fjölga og bæta. Við eigum auðvitað alls staðar að leggja áherslu á það en vð þurfum líka að horfa á hugarfarið sem að baki býr og vinna að þeirri hugarfarsbyltingu sem þarf að eiga sér stað í íslensku samfélagi, hugarfarsbyltingu gagnvart konum og börnum og gagnvart körlum líka.