Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 15:56:18 (5642)

     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Til umræðu er ákaflega stórt mál og mikilvægt og fær það vonandi mikla og ítarlega umfjöllun í hv. félmn. Ég býst við því ef einhver vera kæmi frá annarri plánetu og færi yfir skýrsluna þá virkaði hún býsna vel. Þarna eru mörg fögur orð og fyrirheit en okkur sem þekkjum meira til mála

og fylgjumst með finnst því miður að einhverja meiri meiningu og einhvern meiri vilja vanti á bak við þessi orð. Mér fannst koma áðan fram í máli hæstv. ráðherra að hún taki undir og sé sjálf ekki allt of bjartsýn á aukið jafnrétti á allra næstu árum. Tilfinning mín er sú að þó nokkuð mikið hafi gerst á ákveðnum áratug fyrir um 10 árum en núna sé að verða einhver stöðnun og ekkert sé að gerast. Náttúrlega vekur það ótta hjá manni og það er kannski spurning um það hvort við þurfum einhverjar aðrar aðferðir, hvort þær aðferðir, sem við höfum verið að reyna að beita, með því að semja m.a. einhverjar áætlanir og skrifa niður einhver fögur orð dugi ekki. Síðasti hv. ræðumaður kom inn á þá hugarfarsbreytingu og það er kannski orðið svolítið þreytt orð í umræðunni, hugarfarsbreyting á þessu og á hinu sviðinu, en það þarf eitthvað svoleiðis. Það þarf algerlega nýjan kraft og nýja hugsun. Mér er kunnugt um að mikið úrvalsfólk situr í hv. félmn. og vonandi finnur það þessa leið, finnur þennan kraft.
    Ég ætla ekki að fara efnislega í gegnum skýrsluna. Ég hef hlýtt á alla umræðuna og mér finnst hún hafa verið að mörgu leyti ágæt og hv. þm. hafa verið nokkuð gagnrýnir sem er eðlilegt.
    Ég þekki hvað best til í landbúnaðarmálunum því að ég kem úr þeim geira og mér fannst kaflinn undir landbrn. vera dálítið máttlaus. Það var eiginlega helst það að koma ætti á námskeiðum til þess að kynna konum félagslegt kerfi landbúnaðarins sem er miðað við fréttir síðustu dagana einhvern veginn allt öðruvísi en það á að vera. Ég vona að því verði breytt og nýja kerfið verði kynnt konum en staðreyndin er sú að staða kvenna í landbúnaði er mjög slæm. Það hefur verið gert of lítið af því hér á landi að reyna að bæta þar úr. Annars staðar á Norðurlöndum hefur markvisst verið unnið innan landbúnaðarmálanna að því að bæta stöðu kvenna. Ég sá nýlega ákaflega góðan bækling sem var gefinn út af norsku bændasamtökunum þar sem var verið að reyna að kafa svolítið dýpra inn í málið og velta því fyrir sér hvort ástæðan gæti að einhverju leyti komið frá uppeldinu, þ.e. að stúlkurnar fái til sveita allt annað uppeldi en strákarnir. Strákarnir ætla að verða bændur og berja sér á brjóst en stúlkurnar eru bara feimnar og hafa ekki sérstakar áætlanir, a.m.k. eins og þetta var lagt fram í þessari skýrslu. Þetta er kannski eitt af því sem væri hægt að rannsaka af því að það eru ýmsir hlutir rannsakaðir, þ.e. hvort uppeldi uppalenda er nægilega krefjandi og hvort við ölum stelpurnar upp eins og strákana. Á ýmsum heimilum þar sem eru eingöngu stelpur hefur sýnt sig að þær verða kraftmeiri, kannski fyrir það að þær eru settar svo snemma upp á traktorana. En þetta er kannski nóg í sambandi við landbúnaðarmálin.
    Af því að síðasti ræðumaður kom líka inn á stöðu gamalla kvenna, sem að vísu hefur verið að batna en er ábyggilega margt sem þar mætti betur fara, þá rak ég augun í það á síðasta sumri, held ég að það hafi verið, að norræn ráðstefna gamalla kvenna var haldin, gott ef ekki hér á landi. Þá kom fram að þessar gömlu konur höfðu ekki átt sér stærri ósk og stærra markmið þegar þær voru ungar konur en það að giftast og öðlast efnahagslegt öryggi. Þetta eru því guði sé lof gamlir tímar og ég held að enginn sakni þess svo að ekki sé meira sagt, með fullri virðingu fyrir hjónabandinu.
    Hæstv. forseti, ég vildi ekki lengja umræðuna en mig langaði til þess að segja nokkur orð til þess að sýna áhuga minn á málefninu og láta í ljós þá ósk mína að hv. félmn. geti unnið gott verk að þessum málum.