Greiðslur úr ríkissjóði o.fl.

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 16:20:35 (5645)

     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að hafa ýkja mörg orð um þetta mál enda er ég einn af flm. þessa frv. ásamt öðrum fjárlaganefndarmönnum. Eins og fram hefur komið er frv. endurflutt og var flutt á síðasta þingi og var þá til meðferðar. Eins og kom fram í framsöguræðu 1. flm., formanns fjárln., hefur nefndin farið yfir málið síðan.
    Megintilgangur þess er að það er reynt eftir föngum að girða fyrir greiðslur úr ríkissjóði sem ekki eiga sér stoð í fjárlögum eða fjáraukalögum en eins og sagt er frá á bls. 4 í grg. með frv. er það ákvæði í stjórnarskránni að ekkert gjald megi greiða af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.
    Það er rétt sem kom fram í framsöguræðu hv. formanns fjárln. að það hefur verið unnið að því á undanförnum árum að koma þessum málum í betra horf en verið hefur. Það sem skiptir auðvitað sköpum í því hve vel tekst til í fjárlagagerðinni og hvað sú áætlun er nákvæm er að það takist að halda verðbólgunni í skefjum. Það er auðvitað allt önnur aðstaða fyrir fjmrn., fjárln. og Alþingi sem fjalla um þessi mál að gera áætlanir og raunhæf fjárlög ef verðbólgan helst í skefjum. Í því voru algjör þáttaskil með þjóðarsáttinni á sínum tíma. Ég vildi undirstrika að það er grundvöllur að því að hægt sé að framkvæma með einhverjum vitrænum hætti þá löggjöf sem vonandi verður í kjölfarið á þessu frv.
    Þrátt fyrir ótvíræðan lagabókstaf og ótvíræð stjórnarskrárákvæði er það svo að það eru ákvæði, t.d. í 2. og 10. gr. frv. svo dæmi sé tekið, þar sem örlítið er slakað á miðað við þær aðstæður sem upp kunna að koma. Það þykir rétt og er um það ákvæði í 2. gr. að veita fjmrn. eða samningamönnum ríkisins nokkurt svigrúm til að semja um kaup og kjör án þess að Alþingi þurfi að samþykkja eða synja hvern og einn kjarasamning. Þetta atriði hefur mikið verið rætt en það þykir nauðsynlegt að hafa þetta ákvæði með þeim hætti sem er í 2. gr.
    Í 10. gr. er m.a. gert ráð fyrir því að greiðsluskylda sem rekja má til óviðráðanlegra atvika geti fallið fyrirvaralaust á ríkissjóð. Þá er heimilt að fengnu samþykki fjárln. að inna greiðsluna af hendi, enda þoli hún ekki bið. Það eru þarna viss ákvæði sem taka tillit til þess að af ófyrirsjáanlegum orsökum falli greiðsluskylda á ríkissjóð.
    Ég ætla ekki að orðlengja um þetta frv. Ég stend að flutningi þess og þeirri grg. sem með því er sem er allítarleg og hefur verið rædd ítarlega í fjárln. og mun verða rædd frekar og farið yfir frv. þegar það kemur aftur til nefndarinnar. Ég vildi því aðeins fylgja þessu úr hlaði með örfáum orðum frá okkur, fulltrúum Framsfl., í fjárln.