Greiðslur úr ríkissjóði o.fl.

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 17:14:03 (5650)

     Páll Pétursson :
    Herra forseti. Ég vil lýsa eindregnum stuðningi við þetta frv. og ég held að það væri til stórra bóta ef það yrði að lögum. Þetta er gamall kunningi og þegar við sáum þetta frv. í fyrsta skipti fyrir nokkrum vetrum síðan voru á því ágallar sem nú hafa verið sniðnir af og ég sé ekki neitt á móti því að þetta frv. verði að lögum og er þess reyndar mjög fýsandi þar sem þeir ágallar hafa verið sniðnir af sem ég setti einkum fyrir mig þá.
    Á þskj. 215 er frv. sem ég flutti um hluta af því máli sem hér um ræðir, þ.e. það sem talað er um í 3. gr. frv. hv. þm. Karls Steinars og félaga. Ég flutti um það sérstakt frv. því mér finnst allra brýnast af öllu sem tekið er á í þessu frv. að það verði að lögum, þ.e. að banna sölu á eignum ríkisins án lagaheimilda.
    Ég get ekki neitað því að mér finnst að mín útgáfa betur orðuð en dagskrármálið en geri ekki neitt veður út af því. Meginatriðið er að ráðherrar verða að fá skynsamlegt aðhald, að þeir ekki geti farið með eignir ríkisins eins og þeim sýnist. Það er bannað að selja fasteignir í eigu ríkisins nema samþykki Alþingis komi til. Jafnvel skúrræfil í eigu ríkisins er ekki hægt að selja nema leita til þess lagaheimildar. En hins vegar er ráðherrum heimilt að fara með hlutabréf í stóreignum ríkisins akkúrat eftir sínum geðþótta og hafa gert það. Þess vegna er mjög mikilvægt að setja um þetta skynsamlegt skipulag eins og lagt er til í þessum tveimur frv.
    Ég sé ekkert eftir því heldur þó að vasapeningar ráðherranna verði eitthvað minnkaðir. Það er ekki í einu ráðuneyti heldur í miklu fleirum þar sem ráðherrar hafa undir sér sjóði sem þeir geta gaukað að geðþótta sínum og styrkt ákveðin verkefni o.s.frv. Ég hygg að í þeim ráðuneytum sem hv. 9. þm. Reykv. hefur í gegnum tíðina stjórnað megi finna sjóði eða matarholur sem sé alveg óþarfi að hafa á valdi ráðherra að ráðstafa.
    Varðandi það til hvaða nefndar þetta mál eigi að ganga þá minnir mig að frv. á þskj. 215 hafi verið vísað til efh.- og viðskn. Ég geri engar athugasemdir við að þetta frv. fari til fjárln. og tel að ýmsu leyti með tilliti til flm. líkur á því að það nái fremur fram að ganga ef það fer til þeirrar nefndar. Þá gætu nefndirnar keppst við að afgreiða þessi tvö mál en meginatriðið er að annað hvort þeirra verði að lögum á þessu þingi.