Tekjuskattur og eignarskattur

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 18:00:44 (5661)


     Flm. (Árni R. Árnason) :
    Virðulegi forseti. Ég get vissulega tekið undir orð fyrri ræðumanns. Málið er nokkuð merkilegt. Ég er hins vegar ekki þeirrar skoðunar að það sé mikið að umfangi, þ.e. undir liggi mjög verulegt tap ríkissjóðs í skatttekjum. En vegna þeirra atriða sem hann gerði að umtalsefni, þá hlýt ég að benda á að það sem hér er um fjallað er að mínu mati sanngirnismál og í því formi hef ég sett það fram fyrst og fremst. Ég tel það sanngirni í garð sparisjóðanna sem eru yfirleitt fremur lítil fyrirtæki á fjármagnsmarkaði, að þau fái líkan rétt til að afla eigin fjár. Það skiptir miklu í því ljósi að nú eru í gildandi lögum um banka og sparisjóði og í frv. til laga um viðskiptabanka og sparisjóði gerðar sérstakar kröfur til eigin fjármögnunar. Staðreyndin er sú að þegar í dag er ábyrgðarmönnum sparisjóða gert að leggja fram áhættufé í takmarkaðri ábyrgð.
    Það frv. sem nú er til umfjöllunar í hv. efh.- og viðskn. um viðskiptabanka og sparisjóði gerir ráð fyrir því að þeir haldi því sama fjárframlagi sem stofnfjárbréfum. Það er aðeins umbreyting á því sem þegar er búið að leggja fram. Ég sé ekki í hendi mér á hvaða tíma það fé hefur verið lagt fram, mér er ekki ljóst hvaða umfang gæti verið í því fjármagni varðandi hugsanlegt skatttekjutap ríkissjóðs. Staðreyndin er sú að sparisjóðir á landinu eru ekki mjög margir. Þeir skipta að vísu um það bil þremur tugum ef ég hef réttar upplýsingar, en þeir eru meðal hinna smáu á fjármagnsmarkaði. Ég hygg að það væri verulegt tap í þjónustu við almenning í landinu ef þeir hyrfu úr þessari starfsemi vegna þess að þeim er ekki gerður sæmilegur kostur í samkeppni. Í gangi er mikil samkeppni um fjármagn, bæði lánsfé og eigið fé, og ég tel skipta máli að við leyfum öllum formum ávöxtunar að starfa við eðlileg og sambærileg skilyrði.
    Auðvitað hef ég borið þetta mál undir ráðherra stjórnarflokkanna og þeir tekið því vel, sérstaklega fjmrh., og það er engin ástæða til þess að álykta að stjórnarflokkarnir séu ekki sammála um að þetta mál fái eðlilega umræðu og það komi til álita við umfjöllun um hið stærra frv. sem ég nefni fremst í greinargerð og hef margnefnt í mínu máli. Ég sé ekkert óeðlilegt við það þó aðrir stjórnarliðar hafi ekki einnig gerst flm. og í mínum huga hefur það ekki vakið upp neina spurningu um það hvort einhverjir kynnu þar að vera sem telja það ekki eiga erindi.
    Ég er sammála hv. 2. þm. Vestf. um að málið á erindi hingað inn, en mér finnst það fyrst og fremst skipta máli sem sanngirnismál fyrir sparisjóði sem starfa víða um landið. Sums staðar starfa sparisjóðir þar sem bankar hafa ekki séð sér fært að efna til útibúa, veita heimamönnum merka þjónustu og hafa staðið sig vel. Þeir eiga verulegan þátt í fjármagnsfyrirgreiðslu við atvinnulíf og það verður líka að viðurkennast varðandi nýsköpun eða hugsanlega fjölgun starfa eða á hinn bóginn hugsanlega fækkun starfa að mikil sameining fyrirtækja hefur leitt til hagræðingar og fækkunar starfa. Í því ljósi líka skiptir máli að sparisjóðirnar, þessar smáu einingar, sem starfa við tiltölulega lakari kjör á suman hátt vegna lakari möguleika til hagræðingar, nái að starfa áfram.

    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að gera þessi atriði að meira umtalsefni, en það kemur mér ekki verr og ekki þessu máli ef rétt er álitið að fresta umræðunni þar til ráðherra getur tekið þátt í henni.