Stuðningur við réttindabaráttu Eystrasaltsríkjanna á alþjóðavettvangi

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 18:20:51 (5667)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég hafði nú nokkra samúð með þeim ræðutíma sem hv. flm. mátti hafa hér, en vil þó ekki deila við forseta um þá hluti og e.t.v. hefði komið fram í hans ræðu ef hann hefði talað lengra hverjar eru þessar óeðlilega þröngu kröfur. Eiga Íslendingar að vera talsmenn þess að mannréttindi séu ekki virt? Er íslenska þingið að leggja til að mannréttindi verði ekki virt á vissum svæðum? Er íslenska þingið að leggja til orrustu við stofnanir Evrópuráðsins vegna þess að þær vilja að mannréttindi séu virt? Er það stefnan? Ég segi nei. Fari það bara í logandi.
    Við höfum tekið þátt í því að veita þjóðum eins og Ísrael sjálfstæði. Við settum engin skilyrði um að mannréttindi væru virt. Hvernig er það eiginlega með Sovétríkin? Voru menn ekki að fagna því að kommúnisminn þjakar ekki lengur venjulega Rússa? Erum við ekki öll glöð yfir því? Þeir hafa sloppið undan oki kommúnismans. Eigum við að líta svo á að þeir Rússar sem undir oki kommúnismans voru settir inn í þessi lönd, eigi að bera syndabyrðina af því að það voru kommúnistar sem stjórnuðu Sovétríkjunum á sínum tíma? Er þetta fólkið sem á að taka út refsinguna fyrir það að Stalín stjórnaði eins og hann gerði? Er búið að finna blórabögglana? Eiga þeir allir heima í þessum löndum? Nei. Þetta fólk leið fyrir kommúnismann jafnt og aðrir. Það hefur sama rétt til lífsins eins og Einar Ben. orðaði svo vel:
            Réttan skerf sinn og skammt
            á hvert skaparans barn
            allt frá vöggu að gröf.
    Er það virkilega orðið svo að við förum að mæla með þjóðernishreinsunum? Ef þessi stefna yrði ofan á, hvað yrði þá að gerast í Suður-Afríku undir ógnarstjórninni sem þar hefur verið? Eiga þá þeir hvítu sem þar verða að sækja um borgaraleg réttindi, sækja um það að fá staðfestingu á því að þeir megi búa áfram í Suður-Afríku? Hefur nokkrum manni dottið það í hug? Er ekki aðeins verið að fara fram á það þar að þegnarnir verði jafnir? Höfum við tekið undir kröfu um að það megi víkja þeim öllum úr landi? Ég hef bara ekki heyrt þá kröfu. Og hvað með kröfurnar um Afríku alla, sem hafa verið nýlendur, eða Suður-Ameríku? Eiga þessar þjóðir að fá þá stöðu að geta sagt við þá hvítu sem þar eru: Gott og vel. Nú sækið þið um ríkisborgararétt og eigið það undir náð og miskunn hvort þið megið vera áfram í landinu. Við höfum ekki starfað á þennan hátt.
    Eru hreinsanirnar miklu í Júgóslavíu sem Serbar standa fyrir ekki vítin til að varast? Eru þjóðernishreinsanir það sem menn eru að biðja um? Ég trúi því ekki að Íslendingar séu að biðja um þjóðernishreinsanir. Ég veit ekki til að nokkur maður verði sakamaður fyrir það að vera af öðru þjóðerni í þessum löndum.
    Hvað með Ungverjana sem eru í mörgum löndum eftir skipti heimsstyrjaldarinnar? Verða þeir látnir sækja um vegabréf, ríkisborgararétt í þeim löndum ef þessi stefna verður ofan á? Ég trúi því ekki að mönnum sé alvara með það að halda því fram að vestrænar þjóðir séu með einhverjar ósanngjarnar kröfur um mannréttindi og strangar kröfur um mannréttindi. Mér finnst kröfurnar um mannréttindi of veikar ef eitthvað er. Ég hef aldrei heyrt það áður að Evrópa sé farin að gera of strangar kröfur um mannréttindi. Mér kemur það svoleiðis á óvart að ég er aldeilis undrandi yfir því að nokkur maður skuli halda því fram. Það er hægt að hugsa sér heiminn logandi í borgarastyrjöldum á flestum stöðum, ef það á að fótumtroða mannréttindi. Það stærsta sem þjóðir hafa í reynd verið að berjast fyrir á undanförnum árum á alþjóðavettvangi er krafan um það að þjóðir skuli ekki njóta fullrar virðingar í alþjóðlegum samskiptum nema þær virði mannréttindi. Það er grundvallaratriði.
    Ég verð að segja eins og er að það þarf að skýra það vel fyrir mér hvaða strangar kröfur menn eru að tala um sem séu á slíkan veg að nú þurfi Íslendingar að fara að beita sér gegn því að menn geri kröfur til mannréttinda í Evrópu. Þetta er svoleiðis gersamlega út í hött og þeim mun fyrr sem allar þjóðir og þar á meðal Íslendingar setja það sem algert skilyrði fyrir að aðrar þjóðir fái að taka þátt í samstarfi við aðra, að þar séu mannréttindi virt, þeim mun betra. Við getum aldrei byggt upp það kerfi að ákveðið svæði sé aðeins byggt vissum þegnum, við getum aldrei byggt það upp. Það er búið að blanda þessu saman vítt og breitt um alla jörðina og grundvallaratriðið í stefnu Bandaríkjanna, ekki hvort það eru repúblikanar eða demókratar, hefur verið krafan um að mannréttindin séu virt gagnvart hverjum þjóðfélagshóp fyrir sig. Ég trúi því ekki að þeir Rússar sem voru í þessum löndum verði verri þegnar en aðrir á næstu árum, njóti þeir sömu mannréttinda og aðrir, ég trúi því ekki. En ef menn eru fyrir fram að reyna að búa sér til óvini, þá er lengi hægt að koma slíku til leiðar. Og ég tel að Íslendingar eigi að fylkja sér með öðrum vestrænum þjóðum í því að slaka hvergi á kröfum um mannréttindi.