Stuðningur við réttindabaráttu Eystrasaltsríkjanna á alþjóðavettvangi

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 18:31:49 (5670)

     Flm. (Björn Bjarnason) (andsvar) :
    Frú forseti. Eitt er það sem segir í greinargerð og annað um það hvað ályktunin snýst um. Hún snýst um það að þessum þjóðum verði ekki settir óeðlilegir kostir vegna stefnu þeirra gagnvart ríkisborgararétti þess fólks sem fluttist og flutt var til landanna í skjóli sovésks hernáms. Um það snýst þetta. Og ályktunin snýst um það. Hins vegar á ekki að slaka neitt á kröfum um mannréttindi. En það er ekki endilega hluti af mannréttindum að menn hljóti sjálfkrafa ríkisborgararétt í einhverju ríki og það verða menn að vera reiðubúnir til þess að átta sig á. Það eru sérstakar reglur sem þjóðir geta sett eigin lög um eins og við höfum gert og það er gert í þessum löndum. Ég tel að þær reglur sem settar hafa verið í Eistlandi séu ekki þess eðlis að þær brjóti á nokkurn hátt í bága við þær ströngustu kröfur sem unnt er að gera. Þetta vildi ég láta koma fram.
    Hitt að fara að líkja þessu máli við það að við séum að lýsa yfir stuðningi við þjóðernishreinsanir eins og viðgagnast í fyrrverandi Júgóslavíu er náttúrlega gersamlega út í hött og er til þess fallið að drepa málinu á dreif og spilla fyrir málsstað þessara ríkja og baráttu þeirra fyrir því að sjálfstæði þeirra sé viðurkennt með því m.a. að þau verði fullgildir þátttakendur í alþjóðlegu samstarfi. Ef einhver liti þannig á að þær reglur sem gilda um ríkisborgararétt í þessum löndum séu sambærilegar við þjóðernshreinsanir, þá hefði náttúrlega engum dottið í hug að ljá máls á því að Eistlendingar fengju aðild að Evrópuráðinu, enda var Júgóslavíu vísað úr ráðinu eða sem gestaaðila að ráðinu um leið og þessar hörmungar hófust þar.