Vegalög

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 10:53:48 (5679)

     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Eins og ég sagði áðan þá er það skuldahalinn á Akraborginni sem skapar þessa miklu óvissu. Það sem nú liggur fyrir í sambandi við samgöngur milli Vesturlands og Reykjavíkur er að gera sér grein fyrir því hvort fyrir því séu forsendur að fela Speli að annast útboð og undirbúning þess og framkvæmd, ef ráðlegt þyki, um göng undir Hvalfjörð. Fyrirtækið Spölur er auðvitað mjög veikt og þessi mál eru nú í athugun og ég hef ekki sannfæringu fyrir því að það fyrirtæki hafi bolmagn til að standa að slíkum framkvæmdum hjálparlaust. Þá hlýtur maður að velta fyrir sér stöðu Spalar út af fyrir sig. Á þessari stundu liggur sem sagt ekki fyrir hvort ráðist verði í göng undir Hvalfjörð. Það liggur á hinn bóginn ljóst fyrir að ef það verður ekki gert þá er nauðsynlegt að ráðast í umfangsmiklar framkvæmdir á veginum fyrir Hvalfjörð og jafnframt vakna þá spurningar um hvort rétt þyki í framhald af því að undirbúa veglagningu yfir Dragháls, jafnvel Hestháls og Grjótháls og stytta með því leiðina norður. Þessi mál eru auðvitað ekki á neinu undirbúningsstigi, þetta eru einungis gamlar hugmyndir sem ég er að tala um og hafa ekki verið ræddar milli Vegagerðar og samgrn. Ég er einungis að rifja upp hvernig þessi umræða hefur snúist. En hitt er auðvitað ljóst að ef ekki verður ráðist í göng undir Hvalfjörð þá hljóta menn að taka afstöðu til þess hvort þeir telji ástæðu til að reka áfram ferju milli Akraness og Reykjavíkur og þá á hvaða

grundvelli. Það mál hefur ekki verið rætt við samgn. Alþingis af mér. Þessi mál eru sem sagt í undirbúning og vinnslu og ég hef í rauninni ekki meira um það að segja á þessari stundu.