Vegalög

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 11:15:00 (5682)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hæstv. samgrh. ber af sér þetta frv. Kallar þetta innanhússnefnd í Vegagerðinni og lætur eins og hann hafi ekki lesið það yfir. Ætli það trúi því nokkur lifandi maður að hæstv. samgrh. lesi ekki yfir svona frv. og geri sér grein fyrir því hvað það í aðalatriðum snýst um? Ég tel að framlagning hans á þessu frv. sé yfirlýsing um að það sé hans stefna að leggja niður þessa starfsemi sem við vorum að tala um áðan.
    Um það sem hann sagði áðan að þetta væri yfirvarp mitt til að tefja málið vísa ég nú til föðurhúsanna. Ég hef ekki lagt í vana minn að reyna að koma í veg fyrir að mál nái fram að ganga í þinginu og mun taka þátt í því í samgn. að vinna að málinu þar af fullum heilindum. En ég segi það bara aftur sem ég sagði áðan að auðvitað tekur það lengri tíma fyrir okkur í samgn. að átta okkur á einstökum breytingum sem leiða af þessu frv. þegar ekki hefur verið komið að málinu frá okkar hlið. Það hlýtur hver maður að sjá að er rétt.
    Um það að ekki hafi verið staðið nægilega vel að rekstri Akraborgar á þeim tíma sem alþýðubandalagsmenn hafi verið í ríkisstjórn ætla ég ekki að ræða neitt sérstaklega. Ég tel að það verði bara að horfa á málin eins og þau liggja fyrir. Það hefur verið safnað þarna upp óreiðuskuldum. Ríkið sem slíkt er þarna meirihlutaeigandi og hefur staðið að þessu með þeim hætti að safna upp óreiðuskuldum og dráttarvaxtareikningum á þetta fyrirtæki. Nú er það orðin röksemd í málinu að þessar skuldir séu svo miklar fyrir því að það eigi að leggja niður þessa starfsemi. Það er mjög miður. Það er alveg sama hver hefur komið að þessum rekstri. Það er mjög miður að svona skuli hafa verið staðið að þessu.