Vegalög

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 11:17:06 (5683)

     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég hlýt að lýsa ánægju minni yfir því að hv. þm. hefur að hluta til dregið til baka þá yfirlýsingu sína að hann muni reyna að draga úr að eðlileg vinnubrögð verði um þetta mál í nefndinni. Ég hlýt líka að láta í ljós undrun mína yfir því að hann skuli vera að reyna að gera lítið úr því að Vegagerð ríkisins skuli hafa komið að samningu þessa frv., sem er faglegs eðlis. Þeir sem eldri eru í þingsölum en hann vita mjög vel að það ríkir mjög mikið traust í þinginu einmitt til forustumanna Vegagerðar ríkisins, bæði þess vegamálastjóra sem nú er og þess sem áður var. Það er auðvitað alveg út í hött að halda því fram að ég kannist ekki við þeirra verk, vilji ekki við þau standa, jafnmikið og það er út í hött að halda því fram að það sé óeðlilegt að formaður samgn. og formaður fjárln. komi að máli sem varðar samgöngumál og fjármál áður en þau eru lögð fram í þinginu. Auðvitað á slíkt að verða til þess að greiða fyrir því að það fái eðlilegan framgang. Og það var auðvitað algerlega út í hött hjá hv. þm. Ingibjörgu Pálmadóttur, 2. þm. Vesturl., hér áðan að Samband ísl. sveitarfélaga hefði ekki komið að málinu af því að fulltrúi Sambands ísl. sveitarfélaga í þeirri nefnd sem yfirfór frv. hafi skilað séráliti. Auðvitað gat sá fulltrúi ekki skilað séráliti nema vegna þess að hann var hafður með í ráðum, var í þeirri nefnd sem fór yfir frv. og þar fram eftir götunum. Það þarf ekki að fara fleiri orðum um þetta. Þetta frv. er faglega lagt fram, þetta er faglegt frv., faglega undirbúið og ég vænti þess að það fái faglega umfjöllun í nefnd. Um hitt geta svo menn talað hvort mínar skoðanir í samgöngumálum séu réttar eða ekki. En það er algerlega fyrir utan þetta frv.