Áburðarverksmiðja ríkisins

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 12:09:43 (5694)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um stofnun hlutafélags um Áburðarverksmiðju ríkisins. Frv. þetta er samið í anda almennrar stefnu sem ríkisstjórnin hefur markað um einkavæðingu ýmislegrar starfsemi sem opinberir aðilar hafa með höndum. Þessi stefnumörkun á sér rætur m.a. í því að nauðsynlegt er talið að endurskoða fyrirkomulag og rekstrarumhverfi ýmissa fyrirtækja og stofnana hins opinbera.
    Hin almennu rök sem hníga að því að breyta ríkisfyrirtæki á borð við Áburðarverksmiðjuna hlutafélag eru alkunn. Hér á landi jafnt og annars staðar á Vesturlöndum þykir yfirleitt eðlilegt að ríkið dragi sig sem mest út úr atvinnustarfsemi sem keppir við almennan atvinnurekstur. Jafnframt er talið við hæfi að opinber fyrirtæki sem þannig háttar um séu rekin í formi hlutafélaga. Ríkisfyrirtæki á Norðurlöndum eru yfirleitt rekin sem hlutafélag og mun óhætt að fullyrða að annað rekstrarform heyri til undantekninga.
    Hér á landi, eins og í flestum löndum hins vestræna heims, hefur löggjafinn skilgreint starfsemi hlutafélaga vandlega og sett ítarlegar reglur þar að lútandi. Í lögum um hlutafélög er kveðið nákvæmlega á um starfssvið stjórnar framkvæmdastjórnar og aðalfundar. Þar eru og ákvæði sem vernda rétt minnihlutaeigenda. Þar sem ríkið býður öðrum til samstarfs um atvinnurekstur hentar hlutafélagaformið því ákaflega vel.
    Önnur veigamikil rök fyrir því að nýta hlutafélagaformið fyrir ríkisfyrirtæki felast m.a. í því að rekstur fyrirtækisins verði hagfelldari og sveigjanlegri á ýmsa lund. Stjórn og framkvæmdastjórn gera grein fyrir gerðum sínum og áformum um málefni fyrirtækisins á aðalfundi eða hluthafafundi og eru í þeim efnum ábyrgar gagnvart eigendum verksmiðjunnar. Fjárhagsleg uppbygging fyrirtækisins veldur því að æskilegt er að reka það í formi hlutafélags. Vilji fyrirtækið takast á hendur nýjar fjárfestingar, ráðast í nýjungar eða leitast á annan hátt við að treysta stöðu sína á markaði gefur hlutafélagaformið færi á að leita eftir framkvæmdafé með hlutafjáraukningu og laðar með henni til samstarfs nýja hluthafa sem kæmu inn með nýtt hlutafé.
    Með frv. þessu er lagt til að Áburðarverksmiðju ríkisins verði breytt í hlutafélag sem í upphafi verður í eigu ríkisins. Almenn lög um hlutafélög gilda um fyrirtækið. Stjórn félagsins verður kosin á aðalfundi. Ábyrgð stjórnenda á fyrirtækinu og tengsl við eigendur fellur í þann farveg sem lög um hlutafélög mæla fyrir um.
    Meðan engin breyting verður á eignaraðild Áburðarverksmiðjunnar þykir ekki ástæða til að leggja til að breyting verði á rétti verksmiðjunnar til einkasölu sem henni er tryggður samkvæmt gildandi lögum um Áburðarverksmiðju ríkisins. Samkvæmt bókun 8 um ríkiseinkarétt í samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði stendur aðlögunartími vegna ríkiseinkaréttar til sölu á tilbúnum áburði eigi lengur en til 1. jan. 1995. Verði á hinn bóginn meiri hluti hlutabréfa í verksmiðjunni seldur fyrir þann tíma þykir rétt að einkarétturinn falli sjálfkrafa niður við eigendaskipti á verksmiðjunni.
    Þrátt fyrir að fjárhagur Áburðarverksmiðju ríkisins standi traustum fótum ríkir óneitanlega óvissa um framtíð fyrirtækisins. Verksmiðjan hefur frá því um miðjan síðasta áratug staðið frammi fyrir samdrætti í notkun tilbúins áburðar hér á landi samfara samdrætti í framleiðslu sauðfjárafurða og mjólkurvara. Fyrirsjáanlegur er frekari samdráttur í notkun tilbúins áburðar af þessum sökum en um þessar mundir er unnið kerfisbundið að því að laga framleiðslu þessara afurða að sölumagni á innlendum markaði. Verði samþykktar nýjar reglur, sem nú er fjallað um á vettvangi GATT, má vænta enn frekari samdráttar í framleiðslu búvöru hér á landi sem búast má við að dragi úr notkun tilbúins áburðar. Loks ber að nefna að samkvæmt fyrrgreindum samningi um Evrópskt efnahagssvæði fellur niður ríkiseinkaréttur til sölu á tilbúnum áburði hér á landi frá og með 1. jan. 1995. Telja verður líkur á því að þessi atriði sem hér hefur verið drepið á kunni að leiða til umtalsverðs samdráttar í sölu á tilbúnum áburði hér á landi. Sú hætta blasir við að sala Áburðarverksmiðjunnar dragist verulega saman og að verksmiðjunni reynist ókleift að ná viðunandi rekstrarhagkvæmni miðað við framleiðslumagn.
    Horfur á að afla megi erlendra markaða fyrir framleiðslu Áburðarverksmiðjunnar hljóta að verða að metast m.a. í ljósi þess að í Vestur-Evrópu standa áburðarverksmiðjur með mikla ónýtta framleiðslugetu. Jafnframt verður að gera ráð fyrir að búvörumarkaðir Vestur-Evrópu einkennist mjög á komandi árum af innflutningi landbúnaðarafurða frá nýfrjálsum Austur-Evrópuríkjum.
    Ég hef drepið á helstu ástæður þess að talsverð óvissa ríkir um framtíð fyrirtækisins. Ég legg áherslu á að Alþingi geri sér ljósa stöðu þessa þýðingarmikla fyrirtækis. Mér þykir og mikilvægt að enginn gangi í grafgötur um ótrygga framtíð þess eins og nú blása vindar. Þess vegna þykir mér rétt að draga fram helstu óvissuþætti um framtíð verksmiðjunnar í þessari framsögu en vísa að öðru leyti til grg. með frv.
    Áburðarverksmiðja ríkisins er langstærsta og þýðingarmesta fyrirtækið á sviði efnaiðnaðar hér á landi. Um er að ræða fyrirtæki sem býr yfir víðtækri reynslu og sérhæfingu á ýmsum sviðum efnaiðnaðar, svo sem í framleiðslu á vetni með rafgreiningu og meðhöndlun þess. Brýnt er að búa þannig um hnúta að verksmiðjunni verði sköpuð skilyrði til að takast á við óvissa framtíð. Sem stofnun í eigu ríkisins hlýtur hún að teljast vanbúin til þessa verkefnis. Þess vegna er hér lagt til að rekstrarformi verksmiðjunnar verði breytt í hlutafélag. Tilgangurinn er að skapa henni nauðsynlegan sveigjanleika, aðlögunarhæfni og viðbragðsflýti til að málum hennar megi ráða farsællega til lykta og tryggja hagsmuni ríkisins sem eiganda verksmiðjunnar. M.a. þarf að ákvarða fyrirtækinu nýjan starfsvettvang reynist ekki fjárhagslega hagkvæmt að halda áfram framleiðslu tilbúins áburðar á Íslandi. Jafnframt er nauðsynlegt að skapa betri færi á að ráðast í nýmæli og nýsköpun í starfseminni. Í þessu sambandi er mikilvægt að nýta megi þá tækniþekkingu sem fyrirtækið og starfsmenn þess búa yfir, svo og fjárfestingar sem í eignum þess eru fólgnar. Í þessu skyni verður verksmiðunni sett stjórn sem starfar eftir reglum hlutafélagalaga um ábyrgð gagnvart eiganda og eigendum. Þetta fyrirkomulag virðist best fallið til að ráða fram úr álitaefnum um rekstur fyrirtækisins í framtíðinni.
    Hæstv. forseti. Ég tel ekki ástæðu til að rekja í framsögu efni einstakra greina frv. Mér þykir þó rétt til áherslu að víkja í sem stystu máli að bráðabirgðaákvæðum frv. Annars vegar er kveðið á um að Áburðarverksmiðjan hf. skuli, meðan hún er í eigu ríkisins, hafa sama einkarétt til sölu, framleiðslu og innflutnings á tilbúnum áburði og Áburðarverksmiðja ríkisins hefur haft samkvæmt gildandi lögum nr. 43/1971, um Áburðarverksmiðju ríkisins.
    Í fyrirliggjandi frv. er fylgt orðalagi þeirra laga um þetta efni. Meðan breyting verður ekki á eignaraðild Áburðarverksmiðjunnar þykja ekki efni til að breyta þessum einkarétti hennar. Þess ber þó að gæta að umræddur einkaréttur stendur ekki lengur en til loka aðlögunartíma sem kveðið er á um í samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði.
    Samkvæmt bókun 8 um ríkiseinkarétt í samningnum stendur aðlögunartími vegna ríkiseinkaréttar til sölu á tilbúnum áburði eigi lengur en til 1. jan. 1995. Hverfi meiri hluti hlutabréfa í verksmiðjunni úr eigu ríkisins fyrir þennan tíma þykir eðlilegt að einkarétturinn falli niður við eigendaskipti.
    Í bráðabirgðaákvæði II er kveðið á um að ábyrgð ríkissjóðs á lánssamningum Áburðarverksmiðju ríkisins, sem stofnað hefur verið til fyrir gildistöku laga þessara, haldist til loka samningstíma umræddra

skuldbindinga. Þetta er gert til að koma í veg fyrir að erlendir kröfuhafar nýti heimildir í lánssamningum til að gjaldfella lán vegna hlutafélagsstofnunarinnar. Jafnframt þykir rétt að árétta áframhald ríkisábyrgðar þeirra tveggja lána sem hér um ræðir og skýrt er frá í grg. með frv. Á hinn bóginn þykir eðlilegt að hið nýja félag veiti ríkissjóði fullnægjandi veð í eignum sínum sem tryggingu fyrir skaðleysi ríkissjóðs vegna ábyrgðarinnar.
    Hæstv. forseti. Ég legg áherslu á að landbrn. geti átt gott samstarf við landbn. um efni frv. Ég vil um þetta frv., eins og um önnur frv. sem ég legg hér fram sem landb.- og samgrh., leggja áherslu á að framkvæmdarvald og löggjafarvald verða að vinna vel saman. Þó okkur kunni að greina á um einstaka efnisþætti verður að sjálfsögðu einnig að rifja upp hver forsaga mála er.
    Ég vil leyfa mér að leggja til að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn. Ég legg áherslu á að nefndin geti lokið athugun þess sem fyrst. Frv. hefur legið lengi fyrir í þinginu en ekki komist að vegna annríkis. Á hinn bóginn er það brýnt vegna Áburðarverksmiðjunnar, þess starfsfólks sem þar er og hagsmuna ríkisins að hægt sé sem fyrst að koma nýrri stjórn að Áburðarverksmiðjunni sem hafi svigrúm til þess að íhuga hvernig brugðist skuli við nýjum viðhorfum.