Atvinnumál farmanna

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 13:34:57 (5700)

     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Ég tel að þessi þáltill. eigi mjög brýnt erindi. Það hefur nú á annað ár verið að

störfum nefnd á vegum samgrn. til þess að reyna að leita tillagna og leiða til þess að tryggja störf íslenskra farmanna á íslenskum kaupskipum, en eins og báðum hv. flm. er ljóst hefur ekki náðst samstaða innan nefndarinnar um tillögur sem lagðar yrðu fram. Ég hef á hinn bóginn lagt á það ríka áherslu að þessi nefnd skilaði störfum. Nú er útséð um að nefndin verði sammála um leiðir, þess vegna hef ég lagt áherslu á að afstaða einstakra nefndarmanna komi skýrt fram þannig að hægt sé að vinna áfram að málinu. Ég mun þess vegna beita mér fyrir því áfram að nefndin ljúki störfum þannig að skrifleg afstaða einstakra nefndarmanna og þeirra sem þeir eru fulltrúar fyrir geti legið fyrir þannig að unnt sé að taka fastar á því í framtíðinni.
    Ég tek undir orð flm. um að þetta er spurning um framtíð íslenskrar farmannastéttar hér á landi og vil gjarnan að það komi fram við þessa umræðu að ég vil gera það sem í mínu valdi stendur til þess að við Íslendingar getum áfram verið í forustusveit þeirrar þjóðar sem eiga góða farmenn innan sinna vébanda.