Atvinnumál farmanna

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 13:36:44 (5701)

     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni mál sem að mínu mati er bæði mjög þarft og athyglisvert og nauðsynlegt að fái hraða og góða meðhöndlun í þinginu vegna þess að hér er um að ræða mál sem snertir mjög það sem núna er efst á baugi í okkar þjóðfélagi, þ.e. stöðu atvinnumálanna og þá alvarlegu þróun sem hefur átt sér stað í okkar landi, það er hversu atvinnutækifærum hefur verið að fækka. Það sem okkur hefur fyrst og fremst mistekist á undanförnum nokkuð mörgum árum er það að fjölga atvinnutækifærum í landinu. (Gripið fram í.) Því eins og hv. 2. þm. Vestf. veit mjög vel þá hefur sú þróun verið áberandi a.m.k. frá árinu 1987 að starfstækifærum í okkar landi hefur verið að fækka. Þeim störfum sem hafa verið til reiðu hefur fækkað á þessum tíma. Þetta er hið alvarlega í málinu og einn angi þess máls sem kemur sérstaklega skýrt fram og greinilega er frá greint í grg. þessarar þáltill. segir okkur frá því að einungis á síðustu þremur árum hafi atvinnutækifærum eða ársstörfum íslenskra farmanna fækkað um 183, sem er auðvitað ekki lítið þegar við höfum í huga að þessi starfsstétt er þó ekki fjölmennari en raun ber vitni um.
    Ég held nefnilega þess vegna að við stöndum einfaldlega frammi fyrir því hvort við viljum að þessi þróun haldi áfram óbreytt, því það er ekkert, eða a.m.k. afar fátt sem bendir til þess að hún sé neitt að stöðvast. Við stöndum einfaldlega frammi fyrir þessum erfiða valkosti hvernig við ætlum að bregðast við.
    Ég held að það hafi verið dálítill galli á þeirri umræðu sem hefur farið fram á síðustu missirum um atvinnumálin að þar hafa menn um of einblínt á það sem til nýsköpunar geti talist, þó hún sé að sjálfsögðu allra góðra gjalda verð, en hafa dálítið gleymt því að horfa til þess atvinnulífs sem er fyrir í okkar landi sem við þekkjum og höfum reynslu af og höfum kunnáttu til að stunda. Og jafnnauðsynleg og nýsköpunin er þá megum við heldur ekki gera lítið úr því atvinnulífi sem er fyrir. Ég held einmitt að sú þýðingarmikla atvinnugrein sem er farmennskan í landinu hafi dálítið gleymst í þessari umræðu.
    Staðreyndin er sú að íslensk kaupskipaútgerð þarf að heyja sína samkeppni á alþjóðlegum mörkuðum og ef svo er sem ýmislegt bendir til að aðstæður kaupskipaútgerðarinnar séu lakari hér á landi en í þeim löndum sem hún þarf að glíma við þá fer það auðvitað þannig fyrr eða síðar að menn reyna að bregðast við með einhverjum þeim hætti að þeir geti unað við og geti lifað áfram. Þess vegna hefur þessi alvarlega, ískyggilega og neikvæða þróun orðið, útflöggunin, sem hefur gert það að verkum að ársstörfum í farmennskunni hefur fækkað á sl. þremur árum um 183. Mér finnst þess vegna að bréf, sem hv. alþm. barst frá stéttarfélögum viðkomandi atvinnugreina og var áminning til okkar í þessu sambandi, hafi verið mjög þarft og við eigum að taka þetta mjög alvarlega.
    Ég lít þannig á að sú þáltill. sem hér er lögð fram dragi í fyrsta lagi mjög vel fram þennan vanda sem hér er við að glíma og í öðru lagi hitt, sem líka skiptir miklu máli, að því er varpað fram hvort ekki þurfi sérstaklega að kanna samkeppnisstöðu íslenskrar kaupskipaútgerðar í samanburði við kaupskipaútgerðir annarra þjóða. Það er auðvitað kjarni málsins vegna þess að íslensk kaupskipaútgerð er að berjast á alþjóðlegum mörkuðum og verður þess vegna að búa sem sambærilegust kjör við það sem gerist hjá samkeppnisaðilum erlendis. Við höfum að vísu stigið eitthvert skref í þessum efnum með afnámi aðstöðugjaldsins en að sjálfsögðu þurfum við að skoða aðra þætti og ég hlýt sérstaklega að vekja athygli á þeim hluta grg. sem fjallar um þá ákvörðun stjórnvalda í Danmörku að styrkja kaupskipaútgerðina þar með þeim skattpeningum og launatengdum gjöldum sem danska ríkið hefði fengið af atvinnutekjum danskra farmanna sem störfuðu á skipum í utanlandssiglingum. Þetta er auðvitað mjög athyglisvert mál, en hins vegar geri ég ráð fyrir því að ýmsir muni nema staðar vegna þess að þetta væri auðvitað afdrifarík ákvörðun sem kæmi sérstaklega til góða, einni tiltekinni atvinnugrein og innan hennar er vel að merkja þekkt skipafélag sem mjög hefur verið beint spjótum að í allri opinberri umræðu. ( ÖS: Hvaða skipafélag er það?) Skipafélagið heitir Eimskip eins og hv. þm. væntanlega veit enda hefur hann nokkuð um það mál fjallað. Ég held hins vegar að það hafi verið að koma á daginn að við höfum mikla þörf fyrir öflug og góð atvinnufyrirtæki eins og Eimskipafélag Íslands til þess að vera aflvaki og burðarás í þeirri atvinnulegu framþróun sem við þurfum að sjá í okkar þjóðfélagi.
    Virðulegi forseti. Ég þarf í sjálfu sér ekki að orðlengja þetta mál. 1. flm. þáltill. hefur rækilega gert grein fyrir því í sinni ágætu ræðu. Aðalatriði þessa máls er hins vegar það að við þurfum auðvitað að

hyggja að öllum þeim störfum sem við getum varðveitt í okkar landi og farmennskuna þarf ekki síst að skoða í því sambandi. Ég held að það hafi verið fyllilega tímabært að við beindum sjónum okkar og þó fyrr hefði verið að þessari alvarlegu þróun, þeirri þróun að ársverkum farmanna í landinu hefur á síðustu þremur árum fækkað um 183. Það er ærið tilefni fyrir þessari þáltill.