Atvinnumál farmanna

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 13:56:21 (5709)

     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Allt það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði hér áðan voru alveg sérstök rök fyrir því að tryggja það að rekstrargrundvöllur og rekstrarumhverfi skipafélaganna í landinu væri sem jákvæðast til þess einmitt að tryggja það að aðgangur manna í samkeppninni við Eimskipafélag Íslands væri sem greiðastur og bestur. Og sem betur fer er það nú ekki alls kostar rétt hjá hv. þm. að Eimskipafélagið sé alrátt hér á skipamarkaðnum. Sem betur fer eru enn þá til skipafélög sem veita því nokkra samkeppni og ég minni á hið ágæta skipafélag Samskip og fleiri eru þau skipafélögin sem einnig starfa á þessum markaði með bærilegum árangri þó að sú staðreynd blasi við og það er kjarni þessa máls --- menn eiga ekkert að vera að reyna að drepa því á dreif með einhverju tali út í loftið um aðra hluti --- að menn hafa neyðst til þess í þessari grein að haga málum þannig að ársverkum hefur fækkað. Okkur ber skylda til þess að skoða allar hugsanlegar leiðir til þess að snúa þessari þróun við, m.a. með því að skoða á hvern hátt hægt sé, ef ástæða er til, að breyta skattareglum. Menn geti svo sem vel farið að túlka það með hverjum þeim hætti sem þeir kjósa sér, en menn komast ekkert hjá því að horfast í augu við þá alvarlegu þróun sem hefur orðið að ársverkum og starfstækifærum í þessari grein hefur fækkað og við verðum að spyrja okkur allra hugsanlegra spurninga: Hvernig getum við snúið þessari þróun við?