Atvinnumál farmanna

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 13:58:25 (5710)

     Guðmundur Hallvarðsson:
    Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að hlusta á þessar umræður sem hér hafa farið fram milli tveggja ágætra þingmanna um Eimskip og finnst mér eins og menn hafi aðeins misst af kjarna málsins sem er auðvitað atvinnuöryggi íslenskra farmanna. Mér þykir þó rétt í upphafi máls míns að geta þess að það er eitt fyrrv. íslenskt skipafélag sem enn er þó með skip í reglubundnum siglingum til landsins, hefur þó flutt alla sína starfsemi á erlenda grund, en ræður enn þá íslenska farmenn með sérstökum hætti til starfa, ræður þá til starfa sem verktaka. Þeir eru verktakar í þeim skilningi eins og nafnið segir til um, á föstum launum, án þess að nokkuð sé greitt til íslenska ríkisins, án þess að greitt sé af þeim í Atvinnuleysistryggingasjóð eða aðra þá sjóði sem gæfu þessum íslensku þegnum rétt til að sækja bætur ef illa færi og hafa menn þegar staðið frammi fyrir því að nokkrir hafi misst atvinnu sína vegna erlendra sjómanna sem taka lág laun. Þessir íslensku sjómenn komu svo hingað til lands og ætluðu að sækja atvinnuleysisbætur úr sjóðum samfélagsins en voru þá vissulega búnir að glata rétti sínum til þess.
    Það er athyglisvert þegar menn eru að tala um að það þurfi að gera eitthvert verulegt átak fyrir íslenska kaupskipaútgerð svo að hún sé samkeppnishæf um farmflutninga erlendis. En hvaða íslenskt skipafélag er í beinni samkeppni í farmsiglingum milli hafna erlendis? Ég veit ekki til að það sé neitt íslenskt skipafélag til. Og þegar menn eru að tala um að það þurfi að búa svo um hnútana að íslensk skipafélög séu samkeppnishæf, þá hlýtur sú spurning að vakna, hvort verið sé að tala um það að þessi íslensku skipafélög, sem eru að sigla milli hafa erlendis en þó í reglubundnum siglingum til landsins, njóti sérstaklega einhverra skattaívilnana vegna siglinga milli erlendra hafna. Það er athyglisvert að lesa hér heilsíðuauglýsingar frá Eimskipi dag eftir dag þar sem m.a. kemur fram að Eimskip jók á síðasta ári flutninga milli hafna erlendis um 28% og vonandi vex þeim svo fiskur um hrygg að það megi aukast enn. Að þessu leytinu til eru íslensk skipafélög í samkeppni við erlenda aðila. En það hefur þó komið í ljós þá íslensku skipi hefur verið flaggað út og þægindafáni dreginn að hún að reynslan hefur sýnt útgerðarmönnum það að íslenskir farmenn eru öðrum farmönnum fremri hvað áhrærir þekkingu, reynslu og dugnað.
    Það má sjá það líka hvar erlend skip hafa komið hingað til lands, að á skipum sömu stærðar og eru undir íslenskum fána enn, eru miklu fleiri í áhöfn en á íslenskum kaupskipum. Við sjáum það. Það eru miklu fleiri í áhöfn þá erlendir menn eru að störfum. Það eru aðallega Asíubúar, enda er það hinn ódýrari vinnukraftur sem oft og tíðum er talað um. Annarra þjóða sjómenn eru þó komnir til viðbótar, m.a. frá austantjaldslöndunum.
    Hjá samgrh. kom það fram hér áðan að samgrn. vill leita allra leiða til þess að búa svo í haginn fyrir íslenska kaupskipaútgerð að hún verði hæfari til að takast á við erlenda samkeppni. Sú umræða hefur farið fram nokkuð lengi. Það sem hefur vakið athygli mína í þeirri umræðu er að útgerðir kaupskipanna telja það meginforsendu að breyta verulega kjarasamningum íslenskra farmanna og fækka fólki til að hægt sé að koma íslenskri kaupskipaútgerð í það samkeppnishorf sem þeir telja nauðsynlegt og eðlilegt. Og það ber enn við það sama sjónarmið sem ríkt hefur hér í gegnum árin. Á sama tíma og verið er að auka öryggi í landinu með því að tryggja fækkun slysa með minna álagi á hvern starfsmann er gerð krafa um að fækkað sé á skipum og vinnuálag aukið. Það sýnir sig líka í slysaskýrslum sem fram hafa komið frá sjóslysanefnd hvert stefnir. Það er með ólíkindum að svo hafi til tekist hvað áhrærir íslenska sjómannastétt sú mikla slysatíðni sem þar hefur orðið. Og ef við höfum í huga að sú nefnd sem samgrh. vitnaði hér til skuli vinna með þeim hætti að það sé fyrst og fremst nauðsynlegt að breyta kjarasamningum við borð samgrn. til hins verra, það eru náttúrlega starfshættir sem stéttarfélög farmanna geta ekki unað við. Og m.a. þess vegna hefur kannski farið sem raun ber vitni um, að menn hafa ekki almennt viljað taka þátt í umræðum um það mál hvar ýmis réttindi farmanna hafa áunnist í gegnum áratugina.
    Ekki fyrir löngu sendi Samband ísl. kaupskipaútgerða frá sér fréttabréf þar sem alger uppgjöf kemur fram. Þeir telja að nú sé svo komið að þeir nenna nánast ekki að standa í því lengur að halda þeim fáu skipum sem enn flagga íslenskum fána undir okkar þjóðfána. Nú sé komið að því að flagga út eins og kallað er, flagga út til þess að standa betur gagnvart erlendri samkeppni. Hvaða erlendri samkeppni? (Forseti hringir.) Þegar það er grandskoðað, ég er alveg að ljúka máli mínu, þá kemur í ljós að tvö íslensk skipafélög, Eimskip og Samskip, eru alls ráðandi um fragtflutninga að og frá landinu. Þessir aðilar eru ekki í neinni samkeppni. Ef þeir eru í einhverri samkeppni, þá eru þeir í samkeppni við sjálfa sig vegna þess að þeir hafa tekið erlend leiguskip til flutninga að og frá landinu og þar af leiðandi hefði maður nú ætlað að farmgjöldin hefðu þá lækkað, a.m.k. á þeim skipum, eða vöruverð í verslunum væri lægra vegna þess að það voru svo ,,ódýr`` skip sem fluttu vöruna en ég held að það hafi nú farið ákaflega lítið fyrir því. (Forseti hringir.)
    Virðulegi forseti. Ég áttaði mig ekki á þeirri tímasetningu sem hér var sett á mig, en þetta er mikið mál . . .   ( Forseti: Hv. þm. er heimilt að taka aftur til máls.) Takk fyrir, þá bið ég um orðið strax.