Atvinnumál farmanna

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 14:20:57 (5714)

     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson hefur áður sýnt að hann hefur mikið hugmyndaflug. Í þeirri ræðu sem hann flutti áðan fór hann þó jafnvel fram úr sjálfum sér því ég hygg að það þurfi meira en einhaman mann til þess að koma því að í ræðu um íslenska kaupskipaútgerð hvað breska drottningin borgar í skatta. Hv. þm. orðaði það svo að sú þróun sem hefur átt sér stað innan íslenskrar kaupskipaútgerðar væri undanhald samkvæmt áætlun. Ég skal ekki mótmæla því, en hvenær hófst það undanhald? Það hefur verið í gangi síðustu 10--15 árin, þ.e. á hinum fræga framsóknaráratug. Það var undir stjórn þess flokks, sem hinn ágæti þingmaður Ólafur Þ. Þórðarson tilheyrir, sem undanhaldið hófst. Ég skal að vísu aðeins hugga hann með því að oft er það svo að skipulagt undanhald getur um síður leitt til sigurs. Það er hins vegar ekki sigurvænlegt þegar þessi þingmaður leggst í rauninni gegn því að þessi ályktunartillaga verði samþykkt. Skyndilega kemur þessi harðasti talsmaður stjórnarandstöðunnar, maðurinn sem ræðst hvað harðast gegn stjórninni og er skyndilega svo fullur af trú á íslensku ríkisstjórninni að hann telur að vilji þingsins skipti litlu máli. Það þurfi enga ályktunartillögu, ríkisstjórnin kippi þessu í lag. Ja, mikil er trú þín, kona.
    Ég verð að segja það að ég deili ekki trú hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar á gæsku hæstv. samgrh. í þessu tiltekna máli. Hann hefur sýnt það því miður allt of oft að hann ber hagsmuni tiltekinna skipafélaga of mikið fyrir brjósti til þess að það sé rétt að láta það tækifæri fara fram hjá þinginu að samþykkja þessa tillögu.
    Síðan verð ég að segja það, virðulegi forseti, að nú er það að renna upp fyrir mér hvernig stóð á því að þessi hv. þm. skipaði sér í fylkingu afturhaldsaflanna í Framsfl. sem lagðist þunglega gegn

EES-samningnum. Málflutningur hans allur sýndi það að hann ber ekkert skyn á samninginn um EES. Hann veit hvorki hvaða reglur gilda um ráðningu útlendra manna til Íslands í krafti samningsins né á hvaða kjörum þeir eru. Og hann heldur því blákalt fram, eða það er a.m.k. ekki hægt að skilja mál hans öðruvísi en svo, að það hafi eitthvað með EES að gera að skip eru látin sigla undir þægindafána. ( Forseti: Tíminn er búinn.) Það hefur ekkert með EES að gera. ( Forseti: Tíminn er búinn.) En kannski, virðulegi forseti, sýnir það að hið pólitíska líf þessa hv. þm. og hans flokks byggist á einum allsherjarmisskilningi.