Atvinnumál farmanna

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 14:25:49 (5716)

     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson getur ekki leitað skjóls undir pilsum Bretadrottningar í þessu máli. Það er alveg ljóst að það varðar ekkert EES og þann samning sem fylgir Evrópska efnahagssvæðinu hvort íslensk skipafélög eða önnur innan EES-svæðisins geta látið sín skip sigla undir þægindafána. Það er þróun sem hefur verið við lýði löngu fyrir þann samning og tillagan sem hér liggur fyrir gengur út á það að ríkisstjórninni verði falið að leita leiða til þess að sporna við þessari þróun. Ég tel að mikilvægi málsins sé slíkt að það sé alvörumál þegar þingmaður kemur hér og leggst gegn því að ályktunartillagan verði samþykkt. Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að ég tel að sú afstaða hv. þm., sem mér kemur nokkuð á óvart, þjóni ekki hagsmunum íslenskra farmanna.