Atvinnumál farmanna

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 14:35:36 (5719)

     Guðmundur Hallvarðsson :
    Virðulegur forseti. Það var eitt athyglisvert mál sem tengist siglingum erlendra skipa að og frá landinu og hv. 1. þm. Vestf. kom hér inn á. Það er sú ástæða sem vissulega er til að löggjafinn setji þær skyldur skýrt og afmarkað á erlend skip sem koma inn í efnahagslögsögu Íslands að þau tilkynni komu sína. Við höfum séð hvernig slys hafa orðið á stórum olíuflutningaskipum sem hafa siglt í strand eða rekið stjórnlaust að landi með ómældu tjóni fyrir nálæg lönd. Þar hefur komið í ljós að skipin sigla undir svokölluðum þægindafánum og áhöfnin jafnvel vanhæf til að stjórna skipi. Það er full ástæða til að veita þessu athygli. Það má segja að alþjóðleg samkeppni í kaupskipaútgerð sé komin á algerar villigötur þegar hún er í vaxandi mæli látin velta á því að miða kostnað við lægstu öryggiskröfur og þrælalaun erfiðismanna í fátækum löndum. Slíka þróun ber að stöðva áður en hún nær því stigi sem allt stefnir að. Hér er um málefni að ræða sem taka verður upp sem alþjóðlegt samstarfsverkefni enda ættu þegar að vera fyrir hendi alþjóðleg samtök og stofnanir sem gætu tekið þessi mál föstum tökum ef vilji er til.
    Í bréfi frá Stýrimannafélagi Íslands í janúar til Sambands ísl. kaupskipaútgerða þar sem þeir eru að svara fréttabréfi þeirra, sem ég gat um hér í fyrri ræðu minni, kemur fram alger uppgjöf íslenskrar kaupskipaútgerðar á að halda íslenska kaupskipaflotanum sem slíkum, þ.e. undir íslenskum fána. Í bréfinu segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Ef mannafjöldi þeirra skipa sem flaggað hefur verið út er borinn saman fyrir og eftir útflöggun kemur fram óverulegur munur á fjölda skipverja. Almennt talað er það staðreynd að við það að skipta frá íslenskum sjómönnum til erlendra fjölgar í áhöfn. Þetta er þó að nokkru háð þeim verkefnum sem skipin sinna hverju sinni.``
    Stýrimannafélag Íslands tekur heils hugar undir og skilur þau vonbigði sem fram koma í dreifibréfi SÍK vegna þess hve lítið hefur fengist áorkað í sambandi við þá nefnd sem samgrh. kom hér inn á. Hins vegar harmar Stýrimannafélag Íslands þá stefnubreytingu sem nú hefur orðið hjá Sambandi ísl. kaupskipaútgerða og fram kemur í bréfinu þar sem því er lýst yfir að útgerðirnar muni ekki frekar hvetja til íhlutunar stjórnvalda hvað varðar rekstrarskilyrði íslensku kaupskipaútgerðanna heldur skrá skip sín undir erlenda þægindafána væntanlega með erlendum áhöfnum. Þá er sú fullyrðing að fyrirætlun Sambands ísl. kaupskipaútgerða að íslenski fánin á kaupskipum muni innan tíðar heyra sögunni til svo afgerandi að ekki

verður hjá því komist að taka það alvarlega.
    Og í niðurlagi bréfins segir að í ljósi þessa --- og reyndar alls niðurlags bréfsins þar sem í raun og veru er sagt berum orðum að ekki verði rúm fyrir íslenska farmenn á íslenskum kaupskipum í framtíðinni --- muni Stýrimannafélag Íslands íhuga í fullri alvöru hvort því sé ekki rétt og skylt að hvetja félaga sína til að afla sér atvinnu á öðrum vettvangi svo fljótt sem kostur er. ,,Þá mun félagið enn fremur íhuga hvort ekki er rétt í nafni félagsins að vara unga menn við að afla sér menntunar til starfa á íslenskum kaupskipum.``
    Þetta er alvarlegt bréf. Þetta eru alvarleg orð og þungur áfellisdómur yfir íslenska kaupskipaútgerð. Hvað með Stýrimannaskólann okkar og Vélstjóraskólann? Hvað með íslenska unga menn sem mennta sig á þessu sviði?
    Hér er þessari atvinnugrein svo alvarlega ógnað að í sannleika sagt verð ég að segja að það kom mér mjög á óvart hve sumir þingmenn fóru á flug varðandi þessa þáltill. sem hér er til umræðu. Það er hins vegar um hugsunarefni þegar menn eru að tala um Eimskip að lesa þær heilsíðugreinar sem ég kom hér inn á áðan. Hvað er skipafélagið að fara og til hverra eru þeir að vitna? Hvað ætla þeir sér í framtíðinni þegar þeir segja í þessari ágætu heilsíðuauglýsingu: ,,Íslenskir inn- og útflytjendur verða að geta treyst á reglubundnar áætlunarsiglingar í dag og um ókomin ár.`` Hverjum á að treysta fyrir því? Á að teysta erlendum aðilum til að sjá um það? Erlendum skipafélögum sem mönnuð eru erlendum sjómönnum? Þeir segja líka: ,,Í viðskiptum gilda enn hin gömlu sannindi: ,, . . . orðstír deyr aldregi hveim er sér góðan getur.```` Svo djúpt er kafað. ,,Stöðugleiki og fagmennska eru undirstaða trausts í viðskiptum. Eimskip fyrir framtíðina.`` Hvaða framtíð? Hvað er Samband ísl. kaupskipaútgerða að senda út frá sér þegar það segist vera búið að gefast upp á því að vera með íslenskan kaupskipaflota, þeim sé nákvæmlega sama hvort hann sigli undir dönskum fána eða Panamafána eða hvaða fána öðrum en íslenskum?
    Í annarri ágætri auglýsingu segja þeir að Eimskip sé fyrir íslenska menningu vegna þess að þeir flytji inn til landsins pappír í bækur og þeir hafi flutt nóbelsverðlaunaskáldið okkar til landsins með Gullfossi árið 1955.
    Nei, virðulegur forseti. Það er með ólíkindum hvernig íslensk skipafélög hafa löðrungað íslenskt atvinnulíf með því bréfi sem þeir standa að sem aðilar að Sambandi ísl. kaupskipaútgerða og segja að þeir nenni ekki og hirði ekki um það lengur að hafa áhyggjur af því hvort einhver kaupskipafloti sé til undir íslenskum fána eður ei.
    Síðast en ekki síst ítreka ég það sem ég kom hér inn á áðan varðandi menntun íslenskra farmanna, bæði stýrimanna og vélstjóra. Þetta eru slík tíðindi að þessi þáltill. þarf að fá skjóta afgreiðslu á hinu háa Alþingi. Það eru orð í tíma töluð sem hér hafa komið fram varðandi það mál sem er til umræðu um að það verði að leita allra leiða, ekki núna heldur nú, svo íslensk farmannastétt og íslenskur kaupskipafloti heyri ekki fortíðinni til.